Handbolti

„Finnst við með betra lið og mjög gott lið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði ellefu mörk úr þrettán skotum gegn Austurríki.
Bjarki Már Elísson skoraði ellefu mörk úr þrettán skotum gegn Austurríki. stöð 2 sport

Bjarki Már Elísson var markahæstur á vellinum þegar Ísland vann fjögurra marka sigur á Austurríki, 30-34, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM 2023. Íslendingar náðu mest sjö marka forskoti en gáfu eftir og hleyptu Austurríkismönnum inn í leikinn. Fjögurra marka sigur var samt niðurstaðan.

„Sigurinn hefði getað verið stærri. Við gerðum okkur seka um mistök bæði í vörn og sókn um miðbik seinni hálfleiks sem koma þeim inn í leikinn og þeir fengu blóð á tennurnar,“ sagði Bjarki í samtali við Vísi eftir leikinn í Bregenz í dag.

„Svo náðum við aftur að spyrna okkur aðeins aftur frá þeim sem er jákvætt. Þetta var sigur, fjögur mörk, og ákveðin þroskamerki á liðinu. Við vorum ekkert frábærir en vorum samt alltaf skrefinu á undan. Við tökum eitthvað út úr þessu.“

Klippa: Viðtal við Bjarka Má

Íslenska vörnin var ekki upp á sitt besta í leiknum, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem Austurríki skoraði sautján mörk. En sóknin var mjög góð þrátt fyrir að góð færi hafi farið í súginn.

„Við klikkuðum á dauðafærum og hefðum hæglega getað skorað fjörutíu mörk. Við þurfum að gera betur í vörninni. Mér fannst við ekki ná að stoppa þá nógu oft. Það kom oft síðasta sending þar sem við héldum að við værum komnir með fríkastið. En þetta eru bara hlutir til að laga fyrir laugardaginn,“ sagði Bjarki og vísaði til seinni leiks Íslands og Austurríkis á Ásvöllum.

Bjarki segir að íslenska liðið sé sterkara en það austurríska og er brattur fyrir seinni leikinn á laugardaginn.

„Mér finnst við með betra lið og mjög gott lið og mér líður þannig,“ sagði Bjarki að lokum.

Viðtalið við Bjarka má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×