Skoðun

Fjár­mála­á­ætlun og skortur á sjúkra­liðum

Sandra B. Franks skrifar

Í nýrri fjármálaáætlun, sem var mælt fyrir á Alþingi í síðustu viku, kemur framtíðarsýn stjórnvalda í ljós. Þar segir að Covid-samdrátturinn sé minni en sviðsmyndir gerðu ráð fyrir. Ríkishallinn minnkar hraðar en búist var við. Ríkisútgjöldin stefna í það sem þau voru fyrir Covid. Skuldahorfur séu jákvæðari en talið var í upphafi faraldursins. Ætla má að staða ríkissjóðs sé því betri en menn þorðu að vona.

Sömuleiðis kemur fram í áætluninni að mönnun í heilbrigðisþjónustunni sé ein af stærstu áskorununum stjórnvalda, það þurfi að fjölga heilbrigðisstarfsfólki. Sérstaklega er tekið fram að það sé „skortur á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum“. Þá sé það áætlun stjórnvalda að heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir og að huga þurfi að samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis um hæft starfsfólk. Þá er þess sérstaklega getið að mikil áhætta felst í því ef ekki tekst að snúa þessari þróun við því að heilbrigðisþjónusta verður ekki veitt án heilbrigðisstarfsfólks.

Samstilla þarf hljóð og mynd

Ef markmið stjórnvalda er að styrkja og efla heilbrigðiskerfið líkt og lofað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, af hverju er þá ekki gert ráð fyrir því í þessari glænýju fjármálaáætlun?

Í áætluninni kemur fram að árleg aukning til heilbrigðismála til ársins 2026 verði á bilinu 1,3%-1,7%. Þessi aukning er næstum hlægileg því hún nær ekki einu sinni að halda í árlega mannfjölgun og aukna öldrun þjóðarinnar. Því til viðbótar má gera ráð fyrir að verðbólgan verði nokkuð há á næstu árum, en í ár er gert ráð fyrir um 6% verðbólgu. Þá kemur fram að á síðasta ári fjármálaáætlunarinnar eiga útgjöld til heilbrigðismála að lækka um 2%-stig á milli ára, og því til viðbótar eiga framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu að lækka næstu fimm árin.

Ef standa á við loforðin sem sett eru fram í stjórnarsáttmála, og ef fjármálaáætlun stjórnvalda á að endurspegla raunverulega þróun útgjalda til heilbrigðismála, liggur það í augum uppi að stilla þarf saman hljóð og mynd. Það er engum til gagns að lofa einu og gera svo eitthvað allt annað.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×