Golf

Tiger Woods ætlar sér að spila á The Open

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tiger Woods þakkar fyrir sig eftir Masters-mótið sem fram fór um helgina. Hann ætlar sér að vera með á The Open í júlí.
Tiger Woods þakkar fyrir sig eftir Masters-mótið sem fram fór um helgina. Hann ætlar sér að vera með á The Open í júlí. Gregory Shamus/Getty Images

Tiger Woods, einn besti kyflingur allra tíma, hefur staðfest að hann ætli sér að vera með á The Open-meistaramótinu í golfi sem fram fer á St. Andrews vellinum í júlí.

Tiger ræddi um framtíðarplön sín eftir að hafa leikið fjóra hringi á Masters-mótinu um liðna helgi. Það var hans fyrsta mót eftir að hann lenti í bílslysi sem kostaði hann nánast lífið fyrir rúmu ári.

Þessi 46 ára kylfingur hefur unnið The Open-meistaramótið í tvígang á St. Andrews vellinum, en Woods segir að völlurinn sé í miklu uppáhaldi hjá sér.

„Ég hlakka til að mæta á St. Andrews. Ég mun mæta,“ sagði Woods í samtali við Sky Sports eftir Masters-mótið.

„Þetta er eitthvað sem er mér kært. Ég hef tvisvar unnið The Open-meistaramótið á þessum velli. Þetta er heimili golfsins.“

Tiger hefur unnið 15 risamót á ferlinum, en margir óttuðust að kylfingurinn myndi aldrei geta leikið golf á ný eftir bílslysið. Það kom því mörgum á óvart þegar Tiger ákvað að vera með á Masters-mótinu um helgina, enda var hann sjálfur ekki viss um hvort hann væri í nógu góðu formi til að ganga um hæðóttann Augusta National völlinn.

Tiger lék fyrsta hringinn á 71 höggi, eða einu höggi undir pari. Á öðrum degi lék hann á 74 höggum og komst þar með í gegnum niðurskurðinn, en lék svo á 78 höggum báða síðustu dagana og endaði á 13 höggum yfir pari.

Þrátt fyrir endurkomuna segist Tiger ekki vera búinn að ákveða sig hvort hann taki þátt í öðru risamóti ársins, US PGA Championship, sem fram fer á Southern Hills vellinum eftir rúman mánuð.

„Ég mun aldrei spila fulla dagskrá aftur. Þetta verða bara þessir stóru viðburðir,“ sagði Tiger að lokum.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×