Íslenski boltinn

„Of margir leikmenn á Íslandi á allt of háum launum“

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Kristinsson hefur stýrt KR um árabil, fyrst frá 2010-2014 og svo aftur frá árinu 2017.
Rúnar Kristinsson hefur stýrt KR um árabil, fyrst frá 2010-2014 og svo aftur frá árinu 2017. vísir/hulda margrét

Rúnar Kristinsson, þjálfari knattspyrnuliðs KR, segist gjarnan hafa viljað fá þá Hólmar Örn Eyjólfsson og Aron Jóhannsson í sinn leikmannahóp en þeir fóru báðir til Vals. Hann telur að almennt fái of margir leikmenn á Íslandi of há laun.

Rúnar mætti í viðtal við Þungavigtina líkt og aðrir þjálfarar í Bestu deildinni, til að hita upp fyrir tímabilið sem hefst eftir slétta viku. Þættina má nálgast á tal.is/vigtin.

Rúnar var meðal annars spurður sérstaklega út í það hvort að erfitt væri að keppa við Valsmenn um leikmenn, í ljósi þess að þeir virtust hafa hreppt feitustu bitana líkt og Hólmar og Aron, og hvort að honum hugnaðist að hafa launaþak:

„Nei, það held ég ekki. Ég veit svo sem ekkert hvað Valur er að borga þessum strákum. Við ákváðum að reyna ekki. Ég hefði gjarnan viljað fá þá báða,“ sagði Rúnar.

Klippa: Þungavigtin - Rúnar Kristins um launamál

Þurfum að hugsa um rekstur félagsins líka

„Við tölum bara við umboðsmenn og hina og þessa þegar við leitum að leikmönnum, og maður fréttir það mjög fljótt hvað það muni kosta að ná í þennan leikmann eða hinn. Þá segir maður stundum „heyrðu ókei, þá skulum við bara sleppa þessu“. Við þurfum aðeins að hugsa um rekstur félagsins líka,“ sagði Rúnar og bætti við:

„Mér finnst persónulega stundum allt of margir leikmenn á Íslandi á allt of háum launum, miðað við framlag og vinnu. Við erum að æfa klukkan fimm á daginn, alla daga. Þessir strákar geta verið í annarri vinnu líka. Nú er ég ekki að dæma alla en félögin verða að stjórna því hvað þau eru að borga mönnum og hvað þau eru tilbúin að gera.“

Alla þætti Þungavigtarinnar má nálgast á tal.is/vigtin. Þátturinn með Rúnari kemur þar inn í heild sinni síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×