Handbolti

Handboltamaður látinn eftir árás fyrir utan næturklúbb

Sindri Sverrisson skrifar
Denis Tot var aðeins 27 ára gamall þegar hann lést.
Denis Tot var aðeins 27 ára gamall þegar hann lést. Instagram/@denis_tot

Króatíski handboltamaðurinn Denis Tot lést á föstudag eftir árás fyrir utan skemmtistað í Skopje í Norður-Makedóníu.

Tot, sem var 27 ára gamall, var leikmaður Butel í Norður-Makedóníu. Hann var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í Skopje á föstudagsmorgun en samkvæmt norður-makedónska miðlinum Republika var ástæðan höfuðhögg sem hann hlaut um nóttina.

Á eftirlitsmyndavélum sást Tot í félagsskap með þremur Norður-Makedóníumönnum; tveimur körlum og einni konu. Þegar þau voru að yfirgefa næturklúbb í miðborg Skopje brutust út slagsmál og fékk Tot höfuðhögg. Starfsmaður næturklúbbsins kom að honum meðvitundarlausum og hringdi á sjúkrabíl.

Annar karlanna og konan hafa þegar verið handtekin vegna málsins en leitað er að hinum karlmanninnum.

Republika segir að einn hinna grunuðu sé Angelo Gjorgievski sem hafi ítrekað hlotið dóma, meðal annars vegna framleiðslu nauðgunarlyfja í Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×