Innlent

Grísir eru nú geltir með bólusetningu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ekki eru gerðar lengur skurðaðgerðir á grísum á Íslandi við geldingu, heldur eru þeir bólusettir. Aðferðin hefur gefist mjög vel.
Ekki eru gerðar lengur skurðaðgerðir á grísum á Íslandi við geldingu, heldur eru þeir bólusettir. Aðferðin hefur gefist mjög vel. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Risa skref hefur verið stigið í svínarækt hér á landi því nú eru grísir ekki geltir lengur með skurðaðgerð, heldur eru þeir bólusettir gegn galtarlykt og galtabragði, sem samsvarar geldingu.

Bólusetningar sem þessar hafa verið stundaðar í áraraðir í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í svínarækt, en Evrópulönd hafa verið tregari að hefja bólusetningar. Á tveggja daga ráðstefnu í vikunni á Hótel Selfossi, sem bar yfirskriftina; „Maturinn, jörðin og við“ var Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir með erindi um dýravelferð og matvælaframleiðslu. Hún ræddi sérstaklega um svínarækt á Íslandi og það nýjast sem er að gerast þar hvað varðar grísina og geldingu þeirra.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Mast, sem var með fróðlegt erindi á ráðstefnunni á Selfossi í vikunni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Það snýst um það að Íslandi hefur tekist að afnema geldingu með skurðaðgerð með tilheyrandi sársauka fyrir dýrin eins og var með því að nota aðrar aðferðir, sem snúast um það að bólusetja gegn lyktinni og bragðinu, þar að segja, galtarlykt og galtarbragð og það er einstætt í heiminum held ég og mér sé óhætt að fullyrða það,“ segir Sigurborg.

Þetta er ótrúlega vel gert eða hvað?

„Já, mjög vel gert og við eigum að klappa okkur á bakið þegar við gerum vel.“

Sigurborg segist vera mjög stolt af svínabændum á Íslandi en þessi nýja aðferð sé fyrst og fremst þeirra verk og eigi þeir heiður skilinn fyrir það.

„Þetta var lausnin, sem er náttúrulega frábær fyrir dýrin. Þau finna engan sársauka eða neitt slíkt, ekki frekar en þegar við fáum bólusetningu,“ segir Sigurborg.

Sigurborg segir að við eigum að klappa okkur á bakið þegar hlutirnir eru vel gerðir.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×