Golf

Efsti maður heimslistans með örugga forystu eftir annan dag Masters

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Scottie Scheffler er með fimm högga forystu á Masters-mótinu eftir tvo daga.
Scottie Scheffler er með fimm högga forystu á Masters-mótinu eftir tvo daga. David Cannon/Getty Images

Scottie Scheffler, efsti maður heimslistans í golfi, er með fimm högga forystu á Masters-mótinu í golfi þegar allir kylfingar hafa leikið tvo hringi.

Scheffler var á þremur höggum undir pari eftir fyrsta daginn, en lék holurnar 18 í kvöld á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari Augusta National-vallarins. Scheffler hefur því leikið hringina tvo á átta höggum undir pari.

Næstu menn á eftir Scheffler eru á þremur höggum undir pari, en þar á meðal er Sung-Jae Im sem var efstur eftir fyrsta hring. Im lék hringinn í kvöld hins vegar á tveimur höggum yfir pari og náði ekki að fylgja góðu gengi sínu eftir.

Tiger Woods fór hringinn á 74 höggum og er nú einu höggi yfir pari. Hann spilaði vel í gær og lék á einu höggi undir pari. Hann var hins vegar í vandræðum framan af í kvöld og var kominn þremur höggum yfir par þegar hann átti sex holur eftir, en sótti þá tvo fugla í röð og bjargaði sér fyrir horn.

Eftir hring kvöldsins var svo skorið niður. Af þeim 89 kylfingum sem hófu leik í kvöld komust 52 í gegnum niðurskurðinn. Meðal þeirra sem ekki komust í gegnum niðurskurðinn voru þeir Jordan Spieth, Brooks Koepka og Justin Rose.

Spieth og Koepka léku hringina tvo á sex höggum yfir pari, en Rose lék á átta höggum yfir pari.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×