Innherji

Tekjur Arctica jukust um 470 milljónir og hagnaðurinn fimmfaldast

Hörður Ægisson skrifar
Afkoman í fyrra var sú næst besta frá stofnun Arctica Finance árið 2009.
Afkoman í fyrra var sú næst besta frá stofnun Arctica Finance árið 2009.

Þóknanatekjur verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance jukust um 82 prósent í fyrra og voru samtals 1.073 milljónir króna. Hagnaður félagsins meira en fimmfaldaðist á milli ára og var samtals 359 milljónir króna fyrir skatt. Er þetta næst besta afkoma Arctica Finance frá stofnun þess árið 2009.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi en stjórn félagsins leggur til að 343 milljónir króna verði greiddir í arð til hluthafa. Stærstu eigendur Arctica Finance eru Bjarni Þórður Bjarnason, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins, og Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri, með samanlagt 50 prósenta hlut.

Starfsmenn félagsins voru að meðaltali 17 talsins á síðasta ári, sem er einu meira en árið áður, en launakostnaður jókst um 40 milljónir og var tæplega 324 milljónir. Bókfært eigið fé stóð í 592 milljónum króna í árslok 2021 og eiginfjárhlutfallið var 32 prósent.

Bjarni Þórður Bjarnason er aðstoðarframkvæmdastjóri Arctica Finance og annar af tveimur stærstu eigendum verðbréfafyrirtækisins.

Á árinu 2021 var eignastýringarstarfsemi Arctica Finance efld og samhliða var stofnað dótturfélagið A/F Rekstraraðili ehf. sem sér um rekstur sérhæfðra sjóða. Fram kemur í ársreikningi að Arctica hafi verið með eignir í stýringu og vörslu hjá sér fyrir sína viðskiptavini að fjárhæð rúmlega 17 milljarða króna í lok árs.

Síðasta ár var gjöfult á verðbréfamarkaði veltan í viðskiptum með hlutabréf jókst verulega og fjórar nýskráningar voru í Kauphöllinni. Hlutdeild Arctica Finance í viðskiptum með hlutabréf var um 5,5 prósent en í skuldabréfum var hlutdeild félagsins tæplega 6,4 prósent.

Arctica Finance var umsjónar- og söluaðili við skráningu og hlutafjárútboð Play í júní en fyrr á árinu hafði félagið einnig haft umsjón með lokuðu útboði félagsins. Þá var Arctica meðal annars ráðgjafi Haga við kaup smásölurisans og Regins á nýju hlutafé í Klasa auk þess að vera ráðgjafi Nordic Visitor sem keypti ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Travel af Icelandair á liðnu ári.


Tengdar fréttir

Áttföld eftirspurn eftir hlutum í Play

Um 4.600 áskriftir bárust fyrir um 33,8 milljarða króna í hlutafjárútboði flugfélagsins Play sem lauk nú klukkan 16:00 í dag. Það var áttfalt meiri eftirspurn en framboð var af hlutum í útboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×