Innlent

Ákvörðunin „stór og rétt“

Snorri Másson skrifar
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spyr hvers vegna stjórnvöld senda ekki sendiherra Rússa úr landi.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spyr hvers vegna stjórnvöld senda ekki sendiherra Rússa úr landi. Vísir/ArnarHalldórs

Þingmaður Viðreisnar hvatti til þess á Alþingi í dag að starfsmenn rússneska sendiráðsins á Íslandi yrðu sendir úr landi. Utanríkisráðherra kveðst ekki útiloka slíkar ráðstafanir.

Framferði Rússa í Bútsja hefur verið lýst sem hreinum og klárum stríðsglæpum og viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa ekki látið á sér standa.

Ítalir, Danir, Svíar, Spánverjar og Slóvenar, svo einhverjar Evrópuþjóðir séu nefndar, hafa vísað tugum rússneskra sendiráðsstarfsmanna úr landi á undanförnum dögum. Talsmenn Rússa hafa sagt þær ákvarðanir allar til marks um skammsýni, enda geri þær samskiptin bara erfiðari.

Utanríkisráðherra segir að Íslendingar séu, í takt við aðrar þjóðir, komnir skrefinu nær því að senda starfsmenn Rússa úr landi. Það er vitað mál að starfsmenn rússneskra stjórnvalda eru iðnir við að afla upplýsinga um Íslendinga, sem svo gagnast Rússum. Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki viljað stíga skrefið enn þá.

„Það er hreyfing á þessu að ég útiloka ekkert hvort okkar mat kunni að breytast,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þingmaður Viðreisnar vill að gengið sé lengra og spyr hvers vegna rússneska sendiherranum sé ekki vísað úr landi.

„Já, það gæti þýtt að diplómatar Íslands í Rússlandi verði þá líka reknir heim. En forseti, það er í samhengi hlutanna þolanlegt. Ég stend ekki hér og tala fyrir því að senda starfsmenn rússneska sendiráðsins úr landi vegna þess að ég skilji ekki að það er stór ákvörðun. Ég geri það einmitt vegna þess að ég skil hversu stór sú ákvörðun er. Hún stór og hún er rétt,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×