Skoðun

Lærum af að­lögun náms í heims­far­aldri

Anna Kristín Jensdóttir skrifar

Mennt er máttur er máltæki sem oft er notað þegar rætt er um menntun. Ýmsir sáttmálar hafa verið samþykktir á undanförnum árum til að tryggja borgurum menntun við hæfi. Þá hefur stefnan um skóla án aðgreiningar verið færð í lög og reglur á Íslandi. Hér á landi er tíu ára skólaskylda sem er mikilvægur tími í þroska einstaklinga. Í henni felst að allir nemendur eigi rétt á að stunda nám í sínum hverfisskóla með þeim stuðningi sem til þarf.

Á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar þurfti að aðlaga skólastarf eftir ástandinu í þjóðfélaginu hverju sinni. Ákveðinn hópur fólks þurfti að fara sérstaklega varlega þar sem þeir einstaklingar voru í áhættuhópi á að veikjast illa ef þeir fengju veiruna. Oft var um að ræða einstaklinga sem eru langveikir eða mikið fatlaðir og misstu þeir þess vegna oft meira úr skóla vegna spítalavista, læknisheimsókna eða heimsókna til annarra sérfræðinga. En réttur þeirra til náms er enn sá sami og tókst með samtakamætti og nýrri hugsun að tryggja nám þessa hóps við þessu erfiðu aðstæður..

Af því sögðu er hægt að læra margt af heimsfaraldri þegar kemur að aðlögun náms fyrir þennan hóp. Þannig var fjarnám líkt og annað nám skipulagt á tímum samkomutakmarkana. Sú nálgun gæti gagnast þessum hópi vel, þegar upp koma aðstæður sem halda nemanda frá skóla. Með fjarnámi minnka líkurnar á að nemandi missi mikið úr námi auk þess sem hægt er að hjálpa nemendum að taka þátt í félagsstarfi þrátt fyrir fjarveru. Með því minnka líkurnar á félagslegri einangrun þessara nemenda, sem rannsóknir sýna að getur verið töluverð.

Til að tryggja nám allra ætti að búa til áætlun um fjarnám og þróa innleiðingu þess á næsta kjörtímabili. Slíka áætlun þyrfti að vinna í samráði við skólakerfið, heilbrigðiskerfið og aðra sérfræðinga í málefnum barna og unglinga á grunnskólaaldri. Auk þess að gagnast langveikum nemendum gæti þessi nálgun einnig gagnast nemendum sem eru frá í skemmri tíma vegna slysa eða veikinda. Fjarnám myndi því vera góð viðbót við stuðning við skyldunám auk þess sem það tryggir réttinn til náms eins og bundinn er í lög.

Höfundur er frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavík. 




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×