Neytendur

Mjólkur­vörur hækka aftur í verði

Eiður Þór Árnason skrifar
Kostnaður bænda vegna framleiðslu mjólkurvara hefur farið hækkandi. 
Kostnaður bænda vegna framleiðslu mjólkurvara hefur farið hækkandi.  Vísir/Vilhelm

Verðlagsnefnd búvara hefur hækkað lágmarksverð mjólkur til bænda auk heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur. Lágmarksverð fyrsta flokks mjólkur til bænda hækkaði um 6,60 prósent úr 104,96 krónur á lítrann í 111,89 krónur á lítrann þann 1. apríl.

Í gær, 4. apríl, hækkaði svo heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem verðlagsnefnd búvara verðleggur almennt um 4,47 prósent. Að sögn Aðalsteins H Magnússonar, sölu og markaðsstjóra hjá MS, mun heildsöluverð fyrirtækisins til verslana hækka um 4 til 5 prósent vegna þessa. 

Fram kemur í tilkynningu frá matvælaráðuneytinu að verðhækkunin sé komin til vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun frá 1. desember 2021. Þá hækkaði lágmarksverð fyrsta flokks mjólkur til bænda um 3,38% og heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara almennt um 3,81%.

„Frá síðustu verðákvörðun til marsmánaðar 2022 hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 6,60%, að meðtalinni verðhækkun áburðar sem jafnan er reiknuð í júní. Á sama tímabili hefur vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,14% og er það grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Að sögn verðlagsnefndarinnar verður verðákvörðun tekin til endurskoðunar í maí þegar betri upplýsingar liggja fyrir um áhrif sérstaks stuðnings sem greiddur var út til að koma til móts við áburðaverðshækkanir.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá MS. 


Tengdar fréttir

Mjólkin hækkar í verði

Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að hækka lágmarksverð sem kúabændur fá fyrir mjólk. Þá hækkar einnig heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×