Golf

Fred Couples bjartsýnn á að Tiger Woods spili á Mastersmótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods gengur frá áhugasömum áhorfendum á Augusta National golfvellinum í gær.
Tiger Woods gengur frá áhugasömum áhorfendum á Augusta National golfvellinum í gær. Getty/Gregory Shamus

Tiger Woods tók annan æfingahring á Augusta National golfvellinum í gær en fyrir hann sagði Tiger opinberlega að hann ætlaði að kanna betur stöðuna á sér áður en hann ákveði að vera með á Mastersmótinu í ár.

Samkvæmt Fred Couples, sem spilaði hringinn með Tiger, þá gekk þessi æfingahringur vel hjá Tiger og því eru góðar líkur að hann verði með þegar keppni hefst í Mastersmótinu á fimmtudaginn.

Eins og vaninn er með Tiger þá kallar hann á gríðarmikla athygli og það voru því mjög margir mættir í gær til að reyna sjá hann spila á æfingahringnum.

Blaðamaður ESPN tók sem dæmi að það sýndu mjög fáir Hideki Matsuyama áhuga en hann vann einmitt Mastersmótið í fyrra.

Það eru nær allir að pæla í Tiger Woods og hvort hann verði með á Masters-risamótinu sem hann hefur unnið fimm sinnum á ferlinum.

Tiger hefur ekki spilað á PGA-móti í meira en sautján mánuði en hann slasaðist illa á fæti í bílslysi í febrúar 2021. Hann talaði um það að í desember að læknarnir voru nálægt því að þurfa taka af honum hægri fótinn.

Woods spilaði æfingahringinn með þeim Justin Thomas og Fred Couples. Þeir spiluðu fyrstu níu holurnar á tveimur og hálfum tíma.

„Hann er harður af sér. Hann mun aldrei láta þig vita þótt að hann finni eitthvað til,“ sagði Fred Couples við ESPN. Couples er 62 ára og vann Mastersmótið sjálfur árið 1992.

„Hann leit vel út þegar hann gekk. Maður getur samt alltaf verið að glíma við sársauka en ef hann getur hitt kúluna svona þá snýst þetta bara um alla gönguna. Ef hann getur gengið allar þessar 72 holur þá mun hann keppa. Hann er of góður til að gera eitthvað annað,“ sagði Couples.

Mastersmótið hefst á fimmtudaginn og hefst bein útsending á Stöð 2 Golf klukkan 19.00.


Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×