Hreinar rekstrartekjur Íslandssjóða, sem samanstanda nánast einvörðungu af umsýsluþóknunum, hækkuðu um liðlega 720 milljónir á milli ára og voru samtals 2.546 milljónir króna.
Hagnaður verðbréfasjóða og sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta Íslandssjóða var 15,9 milljarðar króna samanborið við 12.3 milljarða árið áður. Sjóðirnir eru 22 talsins og nam hrein eign þeirra um 224 milljörðum króna í árslok.
Síðasta ár var afar gjöfult á hlutabréfamarkaði en Úrvalsvísitalan hækkaði um 33 prósent og veltan jókst einnig verulega samhliða nýskráningum félaga í Kauphöllina og aukinni ásókn almennings í hlutabréfaviðskipti.
Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir sérstaklega ánægjulegt að sjá góða ávöxtun til viðskiptavina félagsins þegar áhugi almennings á sparnaði og fjárfestingum hefur sjaldan verið jafn mikill og nú.
„Stýring sjóða og eignasafna gekk afar vel hjá Íslandssjóðum á árinu og allir helstu eignaflokkar skiluðu sparifjáreigendum góðri ávöxtun. Þá ber hæst að nefna hlutabréfasjóðinn IS EQUUS Hlutabréf sem skilaði um 60 prósenta ávöxtun á árinu, hæst allra sjóða hér landi. Þá er afar jákvætt að sjá stóraukna þátttöku almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði samfara auknum sparnaði í sjóðum og innlánum.“
Stjórn Íslandssjóða leggur til að allur hagnaður síðasta árs – 1.028 milljónir króna – verði greiddur út í arð. Eigið fé félagsins nam 2.524 milljónum króna í árslok og var eiginfjárhlutfallið rúmlega 63 prósent.
Rekstrargjöld Íslandssjóða hækkuðu um 35 milljónir í fyrra og voru samtals 1.279 milljónir króna. Þar af var launakostnaður 590 milljónir en hann stóð nánast í stað á milli ára var meðalfjöldi starfsmanna 21 talsins og hélst óbreyttur frá fyrra ári.