„Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í vexti undanfarin ár,“ segir Bjørn Sibbern, forstjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq, og bætir við:
„Færsla upp í flokk nýmarkaðsríkja er vísbending um þá tiltrú sem ríkir um áframhaldandi vöxt. Hún gæti aukið enn frekar áhuga á íslenska hlutabréfamarkaðnum og efnahagslífi og skapað ný tækifæri fyrir fyrirtæki og fjárfesta. Ég óska Nasdaq Iceland og viðskiptavinum okkar til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.“
Áætlað er að fimmtán fyrirtæki á Aðalmarkaði Kauphallarinnar verði tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna.
„Þetta eru gríðarlega stór tímamót fyrir íslenska hlutabréfarmarkaðinn og afar góðar fyrir fréttir fyrir efnahagslífið,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. „Ákvörðun FTSE er viðurkenning á því gríðarmikla starfi sem markaðsaðilar hafa lagt af mörkum til að styrkja íslenska markaðinn innan hins alþjóðlega fjármálamarkaðar.
Mikilvægar skráningar fyrirtækja undanfarin ár, aukinn seljanleiki og ýmsar aðrar umbætur á markaði hafa jafnt og þétt aukið áhuga innlendra og alþjóðlegra fjárfesta og nú leitt til þessarar ánægjulegu niðurstöðu,“ segir Magnús.
Í tilkynningu sem Kauphöllin sendi frá sér í gærkvöldi segir að Nasdaq Iceland, ásamt Nasdaq verðbréfamiðstöð, viðskiptavinum, Seðlabanka Íslands, ríkisstjórn og öðrum hagsmunaaðilum, hafi unnið ötullega að því að bæta íslenska fjármálamarkaðinn, sem hefur leitt til umbóta í regluverki og uppgjöri viðskipta til samræmis við alþjóðlegar kröfur.
Í viðtali við Innherja í lok síðasta árs sagði forstjóri Kauphallarinnar að góðar líkur væru á því að Ísland myndi færast upp um flokk hjá FTSE. Við þá breytingu mætti búast við innflæði upp á „tugi milljarða króna“ frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins.
Uppfærsla Íslands í flokk með nýmarkaðsríkjum mun greiða fyrir innflæði verulegs fjármagns inn í íslenskt efnahagslíf sem getur stutt við fjármögnunarmöguleika skráðra fyrirtækja.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 og hjá vísitölufyrirtækinu MSCI frá því í maí 2021. Í kjölfarið fór að bera á talsverðu innflæði frá erlendum sjóðum á markaðinn, einkum í bréf Arion og Marel en síðar einnig í mörg önnur skráð félög.
FTSE Russell tilkynnti í lok september að til skoðunar væri að endurflokka íslenska markaðinn sem annars flokks nýmarkað (e. Secondary Emerging Market) á næsta ári en einnig var tekið fram að íslenski markaðurinn uppfyllti flest þeirra skilyrði markaður þarf til að vera flokkaður sem nýmarkaður (e. Emerging Market).
Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.
MSCI hefur enn ekki gefið neitt út um möguleikann á því að íslenski markaðurinn verði færður upp í flokkinn nýmarkaður. Magnús hefur sagt að hann telji ólíklegt að MSCI færi markaðinn upp um flokk á þessu ári.
„Ég álít hins vegar ólíklegt að MSCI færi Íslandi upp um flokk árið 2022 þar sem Ísland var einungis tekið inn í flokkun fyrirtækisins í fyrsta sinn í vor, eða tveimur árum síðar en FTSE Russell tók Ísland inn í sína flokkun. Uppfærsla ári síðar væri óvenju hraður framgangur,“ sagði Magnús við Innherja í lok desember í fyrra.
Hann telur að forsendur fyrir endurskoðun hjá MSCI geti í fyrsta lagi átt sér stað á næsta ári.
Í lok mars voru hlutabréf 26 félaga skráð á Aðalmarkað og á First North-markaðinn í Kauphöllinni á Íslandi. Nam heildarmarkaðsvirði félaganna rúmlega 2.500 milljörðum króna í lok síðasta mánaðar.