Innlent

Kjörstjórnir í uppnámi vegna hertra hæfisreglna

Jakob Bjarnar skrifar
Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri Múlaþings, telur að í stefni veruleg vandræði víða með að skipa í kjörnefndir eftir að strangari lög tóku gildi um hæfi.
Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri Múlaþings, telur að í stefni veruleg vandræði víða með að skipa í kjörnefndir eftir að strangari lög tóku gildi um hæfi. vísir/vilhelm/austurfrétt

Um þriðjungur þeirra sem skipa áttu kjörstjórnir í Múlaþingi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru bullandi vanhæfir samkvæmt nýjum kosningalögum.

Austurfrétt greindi frá þessu í vikunni en um síðustu áramót tóku ný kosningalög gildi. Þá voru soðnar saman í eitt lög um kosningar til sveitastjórna, Alþingis og svo forsetakosningarnar en kjörstjórnir voru skipaðar áður en þær tóku gildi.

Í kosningalögunum, 18. grein þar sem kveður á um hæfi kjörstjórnarmanna segir að fulltrúi í kjörstjórn teljist vanhæfur og beri að víkja sæti ef ...

 maki hans, fyrrverandi maki sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða einstaklingur skyldur eða mægður honum í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar er á framboðslistar. 

Eisn og segir í bæði kosningalögum og stjórnsýslulögum. Þetta eru talsvert strangari reglur en áður voru í gildi.

Höfuðborgarsvæðið mun lenda í klandri

Óðinn Gunnar Óðinsson er skrifstofustjóri Múlaþings og hann segir í samtali við Vísi þetta stefna í vandræði víða um land og ekki síst í litlum samfélögum.

„Þetta er víða snúið og maður sér það í litlum samfélagögum að þurrkast gömlu kjörstjórnirnar nánast út. Þessi hæfisregla. sem er ströng,“ segir Óðinn Gunnar og dregur ekki úr því að hún sé góð og gild. En menn eigi eftir að reka sig á.

„Til dæmis þegar þeir átta sig á þessu á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru ég veit ekki hvað margar kjördeildir eru. Það eru tólf hundruð manns á bak við hverja kjördeild, mörg hundruð manns í kjörstjórnum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á eftir að koma á daginn, menn eiga eftir að sjá þetta allstaðar á landinu. Hér erum við með sex kjörstjórnir.“

Óðinn Gunnar er menntaður mannfræðingur og honum þykir þetta áhugavert út frá því sjónarhorni; að erfitt geti reynst að mæta mikilvægum hæfisreglum í litlum samfélögum þar sem allir eru tengdir þvers og kruss og alla veganna.austurfrétt

Óðinn Gunnar er menntaður mannfræðingur og honum þykir þetta áhugavert út frá því sjónarhorni jafnframt; að erfitt geti reynst að mæta mikilvægum hæfisreglum í litlum samfélögum þar sem allir eru tengdir þvers og kruss og alla veganna.

„Já, þetta leggst í ættir gamlar á litlu stöðum. Sumar ættir eiga ríka hefð að vilja hafa fólk í framvarðasveitum. Allt í einu verða menn vanhæfir alveg niður úr. Já, þetta setur menn í vanda.“

Þegar hjónin á Teigaseli björguðu Jökuldal

Óðinn Gunnar segir að snúið geti reynst að finna fólk í kjörstjórnirnar. Þeir sem ætli á að gefa sig í kjörstjórn þurfi nú að þylja hæfisregluna og með allt sem þar er tíundað á bak við eyrað fara yfir framboðslistana og spyrja sig hvort þau séu tengd einhverjum sem á lista?

„Þeir koma ekki fram formlega fyrr en 8. apríl og þá geta menn farið að bera sig saman við þá; bíddu, er ég ekki skyldur þessum.“

Þó horfi til vandræða víða um hinar dreifðari byggðir er það ekki svo að höfuðborgarsvæðið sleppi ódýrt frá fyrirsjáanlegri klemmu sem strangar reglur um hæfi kjörnefnda kveða á um.Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Á Austurlandi gæti þetta reynst sérlega snúið en svo dæmi sé tekið af fullkomnu handahófi má segja að þegar hjónin Margrét Ingibjörg Stefánsdóttir og Sigurður Þorsteinsson fluttu að Teigaseli á Jökuldal á framanverðri síðustu öld hafi þau bjargað byggð í Dalnum. Þau voru barnmörg og giftust dætur þeirra á bæi þar um allan dal. Ættartengslin eru þannig og geta verið hlutfallslega býsna umfangsmikil.

Annar hver maður skyldur á Austurlandi

Óðinn Gunnar er kannski ekki til í að kvitta uppá það fyrirvaralaust að annar hver maður sé skyldur á Austurlandi, eins og blaðamaður vill halda fram fjálglega, en það geti látið nærri.

Eins og fram kemur í Austurfrétt eru fimm kjördeildir í Múlaþingi; tvær á Fljótsdalshéraði, ein á Borgarfirði, ein á Djúpavogi og sú þriðja á Seyðisfirði til viðbótar við yfirkjörstjórnina.

„Í hverri þeirra sitja sex einstaklingar, þrír aðal og þrír til vara. Alls eru því 42 einstaklingar í kjörstjórnum Múlaþings. Fjögur framboð hafa birt lista sína fyrir kosningarnar í vor. Þegar er orðið ljóst að rúmur þriðjungur þeirra fulltrúa sem sitja í kjörstjórnunum telst vanhæfur, en búist er við að fimmti listinn bætist við. Þá er ljóst að tveir af sex fulltrúum í yfirkjörstjórn teljast vanhæfir,“ segir í Austurfrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×