Þetta sýnir nýr uppfærður listi yfir stærsti hluthafa bankans – þá sem eiga meira en eins prósenta hlut hverju sinni – en út frá því má ætla að verðbréfasjóðum í rekstri Íslandssjóða hafi verið úthlutað liðlega 12 milljónum hluta að nafnvirði í útboðinu, sem jafngildir um 0,6 prósenta eignarhlut. Kaupverðið hefur verið um 1.400 milljónir króna en ríkið seldi sem kunnugt er 22,5 prósenta hlut og var verðið í útboðinu ákvarðað 117 krónur á hlut.
Frá því að söluferlið kláraðist fyrir opnun markaða síðastliðinn miðvikudag hefur hlutabréfaverð bankans hækkað um 8,5 prósent og er gengi bréfa bankans nú 127 krónur á hlut. Mikil viðskipti hafa verið með bréf í bankanum á undanförnum dögum.
Önnur sjóðastýringarfyrirtæki en Íslandssjóðir komast ekki á lista yfir stærstu hluthafa Íslandsbanka. Meginþorri verðbréfasjóða, fjársterkra einstaklinga og tryggingafélög, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í bankanum sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í hinu lokaða útboði til fagfjárfesta, eins og Innherji greindi frá í síðustu viku.
Íslandssjóðir hafa frá skráningu Íslandsbanka á markað í júní verið í hópi stærri hluthafa en tveir sjóðir í rekstri þess - IS EQUUS Hlutabréf og IS Hlutabréfasjóðurinn - keyptu samanlagt 0,8 prósenta hlut í frumútboði bankans á þeim tíma. Fengu þeir þá úthlutað umtalsvert stærri hlut en aðrir verðbréfasjóðir sem talsverð óánægja var með hjá keppinautum Íslandssjóða.
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins – LSR, Gildi og LIVE – fara núna samanlagt með 15,12 prósenta hlut í bankanum en fyrir útboðið áttu sjóðirnir rúmlega 11,2 prósent. Sjóðirnir þrír fengu úthlutað um 3,5 prósenta eignarhlut, 70 milljónum hlutum að nafnvirði, í útboðinu – Gildi fékk mest eða um 30 milljónir hluta – fyrir samtals um 8,2 milljarða króna. Eftir að útboðið kláraðist hafa bæði Gildi og LSR, sem eru núna stærstu hluthafar Íslandsbanka á eftir ríkissjóði, bætt enn frekar við eignarhlut sinn í bankanum með kaupum á markaði.
Aðrir lífeyrissjóðir sem keyptu umtalsverðan hlut í útboðinu voru Brú lífeyrissjóður sem fer núna með rétt rúmlega tveggja prósenta hlut en í árslok 2021 átti sjóðurinn aðeins 0,76 prósenta hlut. Þá bætti Stapi við sig um 0,5 prósenta hlut, jafngildi um 10 milljónir hluta að nafnvirði, fyrir tæplega 1.200 milljónir króna og Frjálsi er nú á meðal stærstu hluthafa Íslandsbanka með rétt rúmlega eins prósenta hlut.
Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað stórum hluta þeirra bréfa sem ríkissjóður seldi í þessum síðasta áfanga söluferlisins en þeir sex sjóðir sem komast núna á lista yfir stærstu hluthafa bankans fara samanlagt með um 20 prósenta hlut. Samkvæmt heimildum Innherja námu úthlutanir til lífeyrissjóða að jafnaði um 40 prósent af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í útboðinu en líta verður til þess að lífeyrissjóðir sækjast eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum.
Þá eru Arion og Landsbankinn skráðir fyrir umtalsverðum eignarhlut í Íslandsbanka eftir útboðið, eða samtals um 3,3 prósenta hlut. Fullyrða má að þau bréf skiptist hins vegar að langstærstum hluta á veltubók og framvirka samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína. Þá er líklegt að enn eigi eftir gera upp einhver viðskipti og því gefi núverandi eignarhlutur sem er skráður á bankanna ekki endanlega rétta mynd.
Mikil eftirspurn var einnig hjá erlendum fjárfestingarsjóðum í ferlinu og fengu þeir að kaupa talsvert stóran hluta af því sem ríkið seldi en nokkur munur var á því hversu mikið slíkir sjóðir voru skertir. Við úthlutun til þeirra, eins og hjá öðrum sem tóku þátt í útboðinu, var þannig einkum litið til þess hvort þeir væru taldir langtímafjárfestar eða ekki en slíkir erlendir sjóðir áttu samanlagt um 7 prósenta hlut í bankanum í árslok 2021. Það er litlu minna en þeir höfðu keypt í frumútboði Íslandsbanka í júní í fyrra.
Á meðal þeirra erlendu sjóða sem bætti við hlut sinn í bankanum var sjóðastýringarfyrirtækið Capital Group, sem var á meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði Íslandsbanka um mitt árið í fyrra, en sjóðurinn jók eignarhlut sinn úr 4,35 prósentum í 5,06 prósent í útboðinu. Þá er bandaríska fjármálafyrirtækið Citigroup, sem var einn umsjónaraðila í söluferlinu, skráð fyrir 1,04 prósenta hlut en ætla má að það séu bréf sem félagið heldur á fyrir viðskiptavini sína.
Heildarfjárhæð áskrifta sem bárust í söluferlinu var margfalt meiri en sú upphæð – tæplega 53 milljarðar króna – sem ríkið seldi að lokum í bankanum. Samtals bárust tilboð frá um 430 fjárfestum á því verði sem var ákvarðað í útboðinu en stór hluti þeirra hafði einnig tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka um mitt síðasta ár þegar hann var skráður á markað.
Ríkissjóður hefur núna, í tveimur áföngum, selt samanlagt 57,5 prósenta hlut í bankanum fyrir 108 milljarða króna til viðbótar við að fá í sinn hlut arðgreiðslu upp á tæplega 8 milljarða sem var samþykkt á aðalfundi í síðustu viku. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar, sem nemur 42,5 prósentum, er í dag um 108 milljarðar en ríkið áformar að selja allan hlut sinn í skrefum fyrir árslok 2023.
Verðið sem ríkissjóður seldi hlut sinn á, sem jafngilti genginu 1,25 miðað við bókfært eigið fé bankans, var rétt rúmlega 4 prósentum lægra en markaðsgengið – 122 krónur á hlut – var þegar söluferlið fór af stað við lokun markaða í gær. Sá „afsláttur“ var í takt við það sem búast mátti við þegar jafn stór hlutur er seldur með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi á markaði.
Evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, bendir á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á þessu ári með sambærilegu fyrirkomulagi hafi afslátturinn verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur afslátturinn í slíkum útboðum verið enn meiri, eða um 8,4 prósent að jafnaði.
Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar og fengu að jafnaði úthlutað til sínum bréfum sem námu um 15 prósentum af þeirri fjárhæð sem þeir óskuðu eftir.
Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram með þeim hætti að söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur.
Samkvæmt heimildum Innherja lagði Bankasýslan, ásamt ráðgjöfum sínum, upp með að selja 15 prósenta hlut í upphafi vikunnar og í kjölfarið var haft samband við stóra lykilfjárfesta, bæði innlenda og erlenda, þar sem áhugi þeirra var kannaður – samhliða því að þeir urðu tímabundnir innherjar – og hversu mikið þeir kynnu að vera reiðubúnir að kaupa á tilteknu verði.
Eftir að hafa aflað sér þeirra upplýsinga var ljóst að Bankasýslan hafði fengið fjárfestaloforð (e. soft commitment) fyrir því að selja að lágmarki 20 prósenta hlut í bankanum og í framhaldinu var því ákveðið að tilkynna um það eftir lokun markaða í gær að stofnunin hefði ákveðið að setja af stað söluferli þar sem slíkur hlutur væri að minnsta kosti boðinn til sölu.
Næstu klukkutíma á eftir höfðu söluráðgjafar í ferlinu samband við fjölda fagfjárfesta þar sem tilboðsbókin var stækkuð enn frekar og að lokum var ákvarðað að hluturinn sem yrði seldur væri 22,5 prósent og útboðsgengið ákveðið í 117 krónum á hlut. Það var byggt á þeim verðtilboðum sem bárust en einnig tekið tillit til gæða og samsetningu fjárfestahópsins, meðal annars með hliðsjón af því að öflugur eftirmarkaður yrði með bréf bankans eftir útboðið, sem skilaði inn áskriftum.
Bankasýslan hefur núna skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn í næstu viku, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum á tímabilinu.
Fréttin var uppfærð kl. 15:30.