Þetta sýna nýjar tölur Seðlabanka Íslands um eignir verðbréfasjóða, sem birtust í morgun, en eignir hlutabréfasjóða námu 152,1 milljarði króna í lok febrúar og minnkuðu um 3,4 milljarða í mánuðinum en Úrvalsvísitalan lækkaði þá um samtals 5,3 prósent.
Á sama tíma var hins vegar ekkert lát á áframhaldandi fjárfestingum í blandaða sjóði, að frádregnu útflæði, en þær voru yfir 1.270 milljónir króna í síðasta mánuði. Samfellt innflæði hefur verið í slíka sjóði allt frá því í júní árið 2020.
Kaup almennings á hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í þess konar sjóðum 50,8 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020. Almenningur fer því með um þriðjung af heildareignum hlutabréfasjóðanna.
Útflæði úr innlendum hlutabréfasjóðum í liðnum mánuði virðist einkum hafa verið drifið áfram af innlausnum af hálfu almennings en eign hans í slíkum sjóðum, sem dróst saman um 2,7 milljarða króna, minnkaði hlutfallslega meira en annarra hlutdeildarskírteinishafa eins og lífeyrissjóða, atvinnufyrirtækja eða verðbréfasjóða.
Nær stöðugt innflæði hefur verið í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í að verða um tvö ár og á árinu 2021 liðlega fjórfaldaðist það frá fyrra ári. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru um 58 milljarðar á liðnu ári.
Ef undan er skilin síðastliðinn mánuður þá hefur það aðeins einu sinni gerst áður frá því um vorið 2020 að það hefur verið nettó útflæði úr hlutabréfasjóðum innan eins mánaðar. Það var í september í fyrra þegar það var útflæði upp á litlar 20 milljónir króna – sala nýrra hlutdeildarskírteina var samtals 5.658 milljónir króna á meðan innlausnir námu 5.679 milljónum – samhliða skjálfta á hlutabréfamörkuðum í aðdraganda þingkosninganna.
Aðdragandi og eftirmálar innrásar Rússa í Úkraínu, sem hófst aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar, hefur litað mjög þróun hlutabréfaverð á þessu ári. Lágpunktur ársins var 8. mars þegar Úrvalsvísitalan hafði lækkað um 16 prósent frá áramótum en síðan þá hafa lækkanirnar gengið til baka að hluta til og er vísitalan núna 9 prósentum lægri en við upphaf ársins.
Örvar Snær Óskarsson, sjóðstjóri Eldgjár, blandaðs sjóðs á vegum Kviku eignastýringar, sagði í viðtali við Innherja fyrr í þessum mánuði ekki sjá að þessar væringar á mörkuðum hefðu dregið úr áhuga almenna fjárfesta.
„Miðað við okkar sjóði sýnist mér að almennir fjárfestar séu orðnir ansi sjóaðir, sérstaklega eftir að hafa séð markaðinn koma sterkan út úr kóvid. Þrátt fyrir lækkanir á þessu ári eru margir enn í góðum hagnaði og þá er auðveldara að standa af sér storminn. Fólk hefur tilhneigingu til að selja, jafnvel þótt það sé ekki endilega rökrétt, þegar það sér safnið í mínus,“ sagði Örvar.
Á síðustu misserum hefur áhugi almennings á verðbréfum stóraukist en aukninguna má að miklu leyti rekja til vel heppnaðra hlutafjárútboða hér á landi. Einnig hafa lágir vextir ýtt sparifjáreigendum í áhættumeiri fjárfestingar.
Frá því í apríl árið 2020 hafa eignir hlutabréfasjóðanna vaxið um liðlega 90 milljarða króna, sem eykur um leið fjárfestingagetu sjóðanna sem því nemur. Eignir blandaðra sjóða hafa yfir sama tímabil stækkað um meira en 170 prósent og nema í dag um 80 milljörðum.
Heildarviðskipti með hlutabréf námu rúmlega 91 milljarði króna í febrúar og jukust um tæplega 7 prósent frá sama tíma í fyrra. Markaðsvirði skráðra félaga stóð í 2.420 milljörðum króna í lok síðasta mánaðar.