Handbolti

„Erum með hörkulið og eigum ekki að tapa fyrir Fram með sex mörkum“

Andri Már Eggertsson skrifar
Hrannar Guðmundsson var svekktur eftir tap gegn Fram 
Hrannar Guðmundsson var svekktur eftir tap gegn Fram  Vísir/Hulda Margrét

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur með sex marka tap gegn Fram í Safarmýrinni.

„Í fyrri hálfleik fannst mér við spila vel. Vörnin var frábær, sóknarleikurinn góður líka og var ég ánægður með allt í fyrri hálfleik.“

„Varnarlega fannst mér við vera með svör við öllu sem Fram gerði í fyrri hálfleik. Mér fannst það ganga sem við lögðum upp með,“ sagði Hrannar Guðmundsson ánægður með fyrri hálfleik Stjörnunnar.

Stjarnan átti hins vegar aldrei möguleika í seinni hálfleik og tók það gestina níu mínútur að komast á blað í seinni hálfleik.

„Þú auðveldar þér ekki lífið með því að skora ekki í níu mínútur. Við horfðum ekki á markið á þessum tímapunkti, í staðinn fyrir að skjóta á markið vorum við bara að gefa boltann.“

Þrátt fyrir að Fram sé í efsta sæti deildarinnar og Stjarnan fimm sætum neðar þá fannst Hrannari sex marka tap ekki eiga að vera munurinn á liðunum.

„Við erum líka með hörkulið og eigum ekki að tapa gegn Fram með sex mörkum, við erum með öll vopn til að vinna þær,“ sagði Hrannar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×