Körfubolti

Mæðgin komin bæði í sextán liða úrslit Marsfársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niele Ivey faðmar hér son sinn Jaden Ivey eftir að hafa komið og horfa á hann spila með Purdue háskólaliðinu.
Niele Ivey faðmar hér son sinn Jaden Ivey eftir að hafa komið og horfa á hann spila með Purdue háskólaliðinu. Getty/Justin Casterline

Úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans er í fullum gangi og nú er komið að sextán liða úrslitum karla og kvenna.

Lið mæðginanna Niele Ivey og Jaden Ivey verða þar bæði í eldlínunni, Notre Dame kvennamegin og Purdue karlamegin. Fjölskyldulífið snýst því allt um Marsfárið þessa dagana.

Niele Ivey er 44 ára gömul og þjálfari kvennaliðs Notre Dame. Hún tók við liðinu eftir hafa starfað sem aðstoðarþjálfari hjá NBA-liði Memphis Grizzlies. Niele lék sjálf í WNBA-deildinni frá 2001 til 2005.

Hún þjálfari nú skólaliðsins þar sem hún spilaði sjálf 132 leiki með á árinu 1996 til 2001 og var þá með 11,1 stig og 6,9 stoðsendingar að meðaltali á lokaári sínu.

Notre Dame sló UMass og Oklahoma út úr fyrstu tveimur umferðum úrslitakeppninnar. Næst mæta stelpurnar hennar Niele liði NC State.

Ivey eignaðist soninn Jaden Ivey í febrúar 2002 en hún átti hann með fyrrum NFL-leikmanninum Javin Hunter.

Jaden er nú á öðru ári sínu með Purdue háskólaliðinu. Hann var stigahæstur með 22 stig í sigri á Yale í 64 liða úrslitunum en í sigri á Texas í 32 liða úrslitunum var hann með 18 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.

Strákurinn er með 17,6 stig, 4,8 fráköst og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í 35 leikjum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×