Innlent

Staða ó­lígar­kans sem kjör­ræðis­maður Ís­lands ekki í hættu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir málin til skoðunar innan ráðuneytisins en ekkert hafi komið í ljós sem bendir til þess að ríkið hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að refsiaðgerðir Evrópusambandsins bitnuðu ekki á Moshensky.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir málin til skoðunar innan ráðuneytisins en ekkert hafi komið í ljós sem bendir til þess að ríkið hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að refsiaðgerðir Evrópusambandsins bitnuðu ekki á Moshensky. Vísir/Vilhelm

Utanríkisráðherra segir ekki standa til að svipta hvítrússeskan ólígarka titli kjörræðissmanns gagnvart Íslandi. Ekkert nýtt hafi komið fram um hans viðskiptahætti eða samband við einræðisherra Hvíta-Rússlands á síðustu dögum.

Það er hvít­rúss­neski ó­lígar­kinn Aleksander Mos­hen­sky sem er kjör­ræðis­maður Ís­lands í Hvíta-Rúss­landi.

Um­fjöllun Stundarinnar um hann hefur vakið gríðar­lega at­hygli en þar eru ís­lensk stjórn­völd sögð hafa beitt sér í­trekað fyrir því að Mos­hen­sky yrði ekki beittur refsi­að­gerðum af Evrópu­sam­bandinu.

Þetta á að hafa gerst fyrir tíð nú­verandi utan­ríkis­ráð­herra, Þór­dísar Kol­brúnar Reyk­fjörð Gylfa­dóttur, síðast árið 2020. Þór­dís segir það til­vik hafa verið skoðað innan ráðu­neytisins og í ljós komið að það hafi ekki beitt sér sér­stak­lega fyrir því að Mos­hen­sky yrði ekki á lista Evrópu­sam­bandsins yfir Hvít­rússa sem yrðu beittir refsi­að­gerðum.

„Síðan þá veit ég ekki til þess að þetta hafi nokkuð borið á góma. Ekki síðan ég kom inn í ráðu­neytið. Og vil bara að það sé alveg skýrt að ég held ekki hlífi­skildi yfir nokkrum manni sem á erindi á ein­hvern þvingunar­lista,“ segir Þór­dís.

Hún nefnir að Mos­hen­sky sé heldur ekki á sam­bæri­legum lista Banda­ríkja­manna eða Breta.

Ekkert nýtt komið fram um Moshensky

„Ég er til­tölu­lega ný­búin að undir­rita reglu­gerð um refsi­að­gerðir gegn Hvíta-Rúss­landi, eða Belarus, þar sem eru nöfn og lög­aðilar á þeim lista, þar sem hann er ekki. Þannig að það hefur í raun ekkert nýtt komið fram um hans stöðu sem að kallar á það að við förum að beita okkur fyrir því að hann sé á ein­hverjum lista,“ segir Þór­dís.

Mos­hen­sky hefur átt í miklum við­skiptum við ís­lensk sjávar­út­vegs­fyrir­tæki og ljóst að refsi­að­gerðir gegn honum myndu skaða inn­komu ríkisins tals­vert.

„Það hefði af­leiðingar ef það myndu breytast mjög þessi við­skipta­sam­bönd, sem er væntan­lega á­stæðan fyrir því að menn vildu vita hvort hann yrði á lista vegna þess að það hefði af­leiðingar. Hann er um­svifa­mikill við­skipta­maður í Belarus og hefur verið lengi,“ segir ráð­herrann.

Í um­fjöllun Stundarinnar er einnig bent á í að­draganda þess að Mos­hen­sky hafi verið skipaður kjör­ræðis­maður Ís­lands árið 2006 hafi ráðu­neytið sjálft gert litlar sem engar sjálf­stæðar skoðanir á honum.

Þór­dís segir stöðu hans sem kjör­ræðis­maður ekki í hættu eins og er.

„Það er ekki verið að endur­skoða hana núna, nei.“


Tengdar fréttir

Engin ákvörðun tekin um stöðu hvítrússneska ólígarksins

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort hvítrússneski ólígarkinn verði áfram á skrá yfir kjörræðismenn Íslands. Þetta segir utanríkisráðherra sem eftir helgi verður boðaður á fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna málsins.

Stjórnvöld sögð vernda einn áhrifamesta auðjöfur Hvíta-Rússlands

Íslensk stjórnvöld eru sögð hafa beitt sér ítrekað fyrir því að einn áhrifamesti ólígarki í Hvíta-Rússlandi og kjörræðismaður Íslands þar, sæti ekki refisaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins. Ástæðan sé að hann kaupi íslenskan fisk fyrir milljarða, aðgerðir þýddu umtalsvert tap hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×