Eini hluthafi Curio var eignarhaldsfélagið Gullmolar sem er í eigu hjónanna Elliða Hreinssonar, framkvæmdastjóra og stofnanda fyrirtækisins, og Sólveigar Jóhannesdóttur.
Greint er frá kaupverðinu í síðasta ársreikningi Marels en fyrr á þessu ári nýtti félagið sér kauprétt að eftirstandandi 50 prósenta hlut í Curio og er því núna eigandi að öllu hlutafé fyrirtækisins. Marel kom fyrst inn í hluthafahóp Curio þegar það eignaðist tæplega 40 prósenta hlut í nóvember árið 2019.
Curio var stofnað árið 2008 og sérhæfir sig í nýstárlegum lausnum fyrir hausun, flökun og roðflettingu hvítfisks. Aðalmarkaður Curio er Evrópa, með áherslu á Norðurlönd og Bretland en starfsmenn fyrirtækisins eru um 40 talsins.
Þegar Marel fjárfesti fyrst í félaginu í árslok 2019 námu árstekjur Curio um 1.200 milljónum króna og skilaði fyrirtækið hagnaði fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta upp á 250 milljónir það ár. Ekki liggur fyrir ársreikningur síðasta árs en á árinu 2020 nam veltan um 1.050 milljónum króna og hagnaðurinn var um 146 milljónir.
Þegar tilkynnt var um kaup Marels á eftirstandandi helmingshlut í Curio í byrjun síðasta mánaðar kom meðal annars fram að fyrirtækin hefðu unnið sameiginlega að vöruþróun nýrra og spennandi hátæknilausna og byggt á víðtæku sölu- og þjónustuneti og stafrænum lausnum Marel til þess að kanna nýja markaði og selja heildarlausnir um allan heim.
Kaupin á Curio, sem hlaut nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2019, eru sögð samræmast vel markmiðum Marel að bjóða upp á heildarlausnir fyrir matvælaframleiðendur í leit að hátæknilausnum, hugbúnaði og þjónustu. „Kaupin eru mikilvægt skref í metnaðarfullri vaxtarstefnu félagsins sem knúin er áfram af nýsköpun, markaðssókn og ytri vexti,“ sagði í tilkynningu.
Í fyrra keypti Marel einnig annað íslenskt hátæknifyrirtæki, sem heitir Valka, en áætlað kaupverð nemur um 5,4 milljörðum króna, eins og Innherji greindi frá fyrr í dag.
Tilkynnt var um kaup Marels á fyrirtækinu um mitt síðasta ár en þau kláruðust undir lok nóvembermánaðar eftir að Samkeppniseftirlitið hafði gefið samþykki sitt fyrir samruna félaganna.
Stærsti hluthafi Völku, með fimmtungshlut, var Samherji en þar á eftir kom félag í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar með rúmlega 15 prósenta hlut.
Kaupverðið samanstóð annars vegar af greiðslu reiðufjár upp 3,2 milljarða króna og hins vegar 2,6 milljónum hlutum að nafnvirði í Marel en markaðsvirði þeirra þegar kaupin gengu í gegn þann 19. nóvember síðastliðinn – hlutabréfaverð Marels var þá 842 krónur á hlut – var um 2,2 milljarðar. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa Marels lækkað um 13 prósent og stendur nú í 732 krónum á hlut.
Marel, sem er skráð á markað bæði á Íslandi og í Hollandi, er langstærsta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á 565 milljarða króna. Hlutabréfaverð félagsins hefur hins vegar lækkað nokkuð skarpt á síðustu mánuðum, eða um fjórðung frá því í lok ágúst í fyrra þegar það var hvað hæst. Frá áramótum hefur gengið bréfa Marels fallið um rúmlega 16 prósent á meðan Úrvalsvísitalan hefur á sama tíma lækkað um tæplega tíu prósent.