Skoðun

Land­helgis­gæsluna til Suður­nesja án tafar

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir skrifar

Vegna hernaðar Rússlands gegn Úkraínu hefur Atlantshafsbandalagið gert viðeigandi ráðstafanir, viðbragðsstaða hefur verið aukin og varnarviðbúnaður styrktur. Ákvarðanir bandalagsins og sú staða sem upp er komin mun líklega hafa í för með sér aukin umsvif hér á landi og mikilvægt er að við Íslendingar uppfyllum skuldbindingar okkar gagnvart bandalaginu í þeim efnum, í samræmi við þjóðaröryggisstefnu landsins á sama tíma og við treystum varnir Íslands.

Um langt skeið hefur verið í umræðunni að flytja skipastól Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja en í ljósi hlutverks Gæslunnar hvað varnarmál varðar þá tel ég mikilvægt að ganga lengra og flytja starfsemi Gæslunnar í heild til Suðurnesja. Það myndi vera til hagsbóta fyrir Landhelgisgæsluna að hafa höfuðstöðvar sínar þar sem miklir möguleikar eru á uppbyggingu til framtíðar. Sem dæmi má nefna að nú er unnið að breytingum í Njarðvíkurhöfn sem mun bæta aðstöðu fyrir skip Gæslunnar til muna og tryggja þeim varanlega aðstöðu. Frá Suðurnesjum er stutt á aðalstarfssvæði Gæslunnar í varnarlegu tilliti, flugvöllurinn er opinn allan sólarhringinn og möguleikar á uppbyggingu á því svæði augljósir. Alþjóðlegar æfingar sem farið hafa fram á svæðinu sýna einnig fram á að aðstaðan á öryggissvæðinu gegnir lykilhlutverki hvort sem litið er til staðsetningar svæðisins, starfsfólks í þjónustu við litlar og stórar flugvélar, aðgengi að eldsneyti eða tækniaðstöðu. Mikilvægt er að horfa til framtíðarþarfa Gæslunnar og taka tillit til aukningar á umfangi, bæði varðandi leit og björgun en ekki síst út frá öryggis- og varnarhagsmunum.

Með flutningi Landhelgisgæslunnar myndi ríkisvaldið einnig sýna í verki stuðning sinn við uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum auk þess að gera Landhelgisgæsluna að mun öflugri stofnun til hagsbóta fyrir sjófarendur, sjúklinga og landsmenn alla. Nauðsynlegt er að tryggja öflugt viðbragð og með samþættingu sem þessari tel ég að því verði náð. En eins og áður sagði hefur umræða um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja verið rædd í langan tíma og kallað hefur verið eftir umsögnum hagsmunaaðila í nokkur skipti. Umsagnir hafa langflestar verið mjög jákvæðar og rauði þráðurinn í þeim verið að staðsetningin henti vel, að hægt verði að stórauka starfsemina, fjölga starfsmönnum, möguleikar á að koma á staðvöktum þyrlusveitar og að auka öryggi þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda ef næg fjármögnun er tryggð.

Í ljósi alls þessa hvatti ég dómsmálaráðherra í ræðu minni á þingi á dögunum að taka ákvörðun um að flytja stofnunina til Suðurnesja án tafar og setja undirbúning þess í algeran forgang í góðu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk Landhelgisgæslunnar, flaggskips okkar í öryggis- og varnarmálum.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ og varaþingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×