Golf

Sex kylfingar létust og tveir illa slasaðir eftir að liðsrútan lenti í árekstri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laci Stone var yngsti meðlimur golfliðsins sem lést en hún var aðeins átján ára gömul.
Laci Stone var yngsti meðlimur golfliðsins sem lést en hún var aðeins átján ára gömul. University of the Southwest

Níu manns létust í bílslysi í Texasfylki í Bandaríkjunum þegar liðsrúta golfliðs Southwest háskóla lenti í hryllilegum árekstri á leið heim úr keppnisferð.

Liðsmenn University of the Southwest voru á leiðinni heim frá golfmóti sem fór fram í Midland í Texas. Restinni af mótinu var aflýst en þar tóku ellefu skólar þátt en bæði karla og konur tóku þátt í mótinu.

Nú er komið í ljós að í pallbíllnum sem keyrði framan á rútuna var þrettán ára drengur við stýrið með faðir sinn við hliðina.

Í fréttum bandaríska fjölmiðla kemur fram að pallbíllinn hafi rásað inn á vitlausan vegarhelming og bílarnir tveir skollið saman á miklum hraða. Eldur kviknaði síðan í báðum bílum eftir áreksturinn.

Feðgarnir létust báðir en einnig sjö manns í rútunni. Þjálfari golfliðsins og sex liðsmenn létust og þá eru tveir kylfingar til viðbótar lífshættulega slasaðir.

Þau sem létust voru Tyler James, 26 ára þjálfari liðsins sem og kylfingarnir Mauricio Sanchez (19 ára), Travis Garcia (19 ára) Jackson Zinn (22 ára), Karisa Raines (21 árs), Laci Stone (18 ára) og Tiago Sousa (18 ára).

Hinn 19 ára gamli Dayton Price og hin 20 ára Hayden Underhill voru flutt lífshættulega slösuð á sjúkrahús en þau eru bæði frá Kanada.

Lög í Texas leyfa ungmennum í fylkinu að hefja æfingaakstur undir eftirliti fullorðins ökumanns þegar þau ná fimmtán ára aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×