Innherji

Seðlabankastjóri segir að samfellt kaupmáttarskeið sé mögulega komið á enda

Það er „engin ástæða til að örvænta yfir þessari þróun,“ að sögn Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann er spurður út í hækkandi verðbólguvæntingar fjárfesta á skuldabréfamarkaði en þær hafa rokið upp á síðustu vikum, til fimm ára mælast þær núna um 5,5 prósent, og hafa ekki verið hærri frá því eftir fjármálahrunið.

Hörður Ægisson skrifar
„Íslendingar verða að átta sig á því að ef það er hliðrun á hrávöruverði erlendis þá verðum við að taka þá hækkun á okkur. Verkalýðsfélögin geta ekki brugðist við slíkum hækkunum með því að krefjast þess að launin hækki á móti,,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Það er „engin ástæða til að örvænta yfir þessari þróun,“ að sögn Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra, þegar hann er spurður út í hækkandi verðbólguvæntingar fjárfesta á skuldabréfamarkaði en þær hafa rokið upp á síðustu vikum, til fimm ára mælast þær núna um 5,5 prósent, og hafa ekki verið hærri frá því eftir fjármálahrunið.

„Ég held að það sem spili þarna mikið inn í sé staðan á vinnumarkaði, sem lítur ekki vel út, og fréttir gefa til kynna að verkalýðshreyfingin sé sundruð. Það er alltaf best að hafa hana sameinaða sem nú virðist ekki vera. Það er mikilvægt að hafa í huga að stöðugleiki næstu þriggja ára veltur einkum á þeim kjarasamningum sem verða gerðir síðar á árinu,“ sagði Ásgeir þegar Innherji settist niður með seðlabankastjóra eftir yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar síðastliðinn miðvikudag.

Í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn birti sama dag, segir meðal annars að efnahagshorfur hafi versnað eftir innrás Rússa í Úkraínu aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar síðastliðinn og að hægt gæti á efnahagsbatanum hér á landi. Miklar verðhækkanir hafa verið á hrávörumörkuðum og viðbúið sé, að mati Seðlabankans, að verðbólga muni aukast enn frekar í kjölfarið en samkvæmt síðustu mælingu í febrúar var hún 6,2 prósent.

Meiri alþjóðleg óvissa og rýrnun viðskiptakjara gæti sett þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar en á móti kemur sé staða heimilanna almennt sterk, mikill sparnaður hafi byggst upp og eignastaðan góð, segir í ritinu.

Ásgeir bendir á að sögulega séð hafi svo miklar hrávöruverðshækkanir – olíuverð hækkaði mest um næstum 40 prósent eftir að stríðsátökin hófust en tunnan stendur núna í um 106 Bandaríkjadölum – aldrei enst lengi, heldur gengið skjótt til baka.

„Ég er að vonast eftir því að sama verði uppi núna en þessi staða verður erfið ef Rússland er lokað frá heimshagkerfinu í einhvern tíma. Það er talsvert mál og mun hafa áhrif á þennan markað,“ að sögn seðlabankastjóra, sem bætir við:

„Íslendingar verða að átta sig á því að ef það er hliðrun á hrávöruverði erlendis þá verðum við að taka þá hækkun á okkur. Verkalýðsfélögin geta þannig ekki brugðist við slíkum hækkunum með því að krefjast þess að launin hækki á móti. Það væru röng viðbrögð við vandanum. Þú færð ekki bætt lífskjör með því að haga stefnunni með þeim hætti,“ útskýrir hann.

„Þess vegna vona ég að þjóðin sætti sig við það að ef hrávara er að hækka í verði að þá séum við ekki að fara sækja fram meiri kaupmátt á meðan því stendur. Ef það á að gera kjarasamninga til langs tíma þá þurfa aðilar vinnumarkaðarins að viðurkenna þann raunveruleika að það náist mögulega ekki árangur í að hækka raunlaunin á fyrsta ári á meðan við erum að há þessa baráttu við verðbólguna – heldur að það muni frekar gerast á öðru og þriðja ári samningsins. Lífskjör okkar ráðast af þeim verðmætum sem eru til skiptanna og þau verða ekki til upp úr engu,“ segir Ásgeir.

Þess vegna vona ég að þjóðin sætti sig við það að ef hrávara er að hækka í verði að þá séum við ekki að fara sækja fram meiri kaupmátt á meðan því stendur

Spurður hvort ríkisstjórnin eigi að koma með mótvægisaðgerðir fyrir heimilin vegna þessara miklu verðhækkana, einkum á hrávörum og bensínverði, eins og sumir hafa kallað eftir segir Ásgeir að hann telji að það eigi að fara „varlega“ í slíkar ráðstafanir.

„Verðhækkanir á þessum vörum sýna fram á skort og við þurfum að aðlaga okkur að þeirri breyttu stöðu. Þessir hlutir eru að fara kosta meira og þá þýðir það að við – heimilin og fyrirtækin – þurfum að borga meira fyrir þá. Ríkissjóður á ekki að fara verja heimilin sérstaklega gagnvart því. Seðlabankinn hefur þess vegna ekki hvatt til þess að gripið sé til sérstakra mótvægisaðgerða og telur það ekki réttu leiðina til að eiga við innflutta verðbólgu.“

Fjárfestar óttast að verðbólga muni reynast þrálátari og meiri en áður var spáð og hafa því verið að selja óverðtryggð ríkisbréf á lengri endanum, sem hefur þýtt að ávöxtunarkrafa þeirra hefur rokið upp fyrir fimm prósent í fyrsta sinn í meira en þrjú ár, á meðan mikil ásókn hefur verið í verðtryggða vexti sem hefur lækkað verulega kröfuna á þau bréf. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, sem reiknast út frá vaxtamun verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa, til fimm ára hefur samhliða þessari þróun hækkað úr liðlega 4 prósentum í 5,5 prósent frá áramótum, eins og Innherji fjallaði um í vikunni.

Verðbólguvæntingarnar á skuldabréfamarkaði hérlendis hafi rokið upp umtalsvert meira en í flestum öðrum löndum, meðal annars í Bandaríkjunum. Þar mælist verðbólgan samt hærri – hún er komin í 7,9 prósent – og hækkandi orkukostnaður á heimsvísu mun hitta bandarísk heimili og fyrirtæki mun verr fyrir en þau íslensku.

Hagfræðingar segja þessa stöðu koma til vegna vaxandi innfluttrar hrávöruverðbólgu og truflana á aðfanga- og flutningskeðjum, bæði sökum faraldursins og nú einnig stríðsátakanna í Úkraínu. Innflutta verðbólgan er enn ekki farin að mælast svo miklu nemi hér á landi og hætt við því að þær verðlagshækkanir komi inn í töluverðum mæli á næstu mánuðum.

Að mati Ásgeirs má skýra þessar ýktu sveiflur á skuldabréfamarkaði að einhverju marki vegna flæðistengdra þátta. Þar vísar hann til þess að lífeyrissjóðirnir, stærstu fjárfestarnir á markaði, sé ekki virkir gerendur á skuldabréfamarkaði, umsvif erlendra sjóða séu nánast engin og það sé því lítið framboð af kaupendum þegar það myndast söluþrýstingur eins og verið hefur. Þá hefur einnig verið skortur á verðtryggðum eignum.

Við gætum þurft að beita inngripum í meira mæli og vera reiðubúinn að bregðast við þegar það kunna að skapast þrýstingur á krónuna vegna þess að fjárfestar þurfa að losa um framvirkar stöður.

„Það er því erfitt að segja til um hversu djúpt er hægt að lesa í þessa þróun á skuldabréfamarkaði en vissulega er hún eitthvað sem Seðlabankinn þarf að horfa til.“

Eykur þetta líkur á að bankinn þurfi að herða aðhaldsstigið meira en ella?

„Það fer eftir því hvernig litið er á málið,“ útskýrir Ásgeir, og bendir á að þróunin sé sú hin sama í öðrum löndum, meðal annars á evrusvæðinu þar sem krafan á löng skuldabréf hefur farið hækkandi.

„Þetta er kannski fremur til marks um að vaxtarófið sé að hreyfast og verða meira upphallandi,“ segir Ásgeir, en það þýðir að skuldabréfafjárfestar búast við hækkun skammtímavaxta í framtíðinni þannig að vextir til lengri tíma eru hærri en vextir til styttri tíma.

Sækja í gengisvarnir eftir auknar heimildir til afleiðuviðskipta

Í fjármálastöðugleikariti Seðlabankans kemur meðal annars fram að á síðasta ári hafi mátt greina aukinn áhuga viðskiptavina hjá bönkunum á því að verja sig fyrir styrkingu krónunnar. Sést það bæði á framvirki stöðu bankanna í erlendum gjaldmiðli og fjölda samninga og mótaðila í slíkum samningum. Bráðabirgðatölur fyrir hreina framvirka stöðu bankanna þar sem króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli var jákvæð um 139 milljarða króna í lok febrúar en til samanburðar var hún nálægt núlli í byrjun árs 2021.

Spurður hvort þessi ásókn fyrirtækja í að leita í gengisvarnir eftir að heimildir til afleiðuviðskipta voru auknar um mitt síðasta ári hafi verið meiri en Seðlabankinn bjóst við segir Ásgeir svo ekki endilega vera.

„Við viljum varna því að við séum að sjá einhverjar stórar framvirkar gjaldeyrisstöður koma upp, eins og var á árum áður, en á sama tíma verðum við að viðurkenna mikilvægi þess að útflutningsfyrirtæki geti varið sig gagnvart gengisáhættu með því að gera framvirka samninga,“ segir Ásgeir.

Hann telur að ein afleiðing þess að opnað var fyrir afleiðuviðskipti með krónuna sé sú að Seðlabankinn hafi núna ríkari ábyrgð á að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

„Við gætum þurft að beita inngripum í meira mæli og vera reiðubúinn að bregðast við þegar það kann að skapast þrýstingur á krónuna vegna þess að fjárfestar þurfa að losa um framvirkar stöður sínar. Þetta gerir því gjaldeyrisinngripastefnuna meira krefjandi,“ að mati Ásgeirs.

„Það skipti máli, og var afar jákvætt, að gjaldeyrismarkaðurinn hafi hreinsað sig nánast út á einum degi fyrr í þessum mánuði og eftir það er búið að vera meira jafnvægi á krónunni,“ en þar vísar Ásgeir til gjaldeyrissölu bankans upp á samtals 48 milljónir evra, jafnvirði 7 milljarða króna, í upphafi síðustu viku – mesta sala bankans á gjaldeyri á einum degi í sex ár – þegar mikill þrýstingur var á gengið til lækkunar. Fram kom í kynningu Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs, að fjárfestar sem höfðu gert framvirka gjaldeyrissamninga hefðu þá að líkindum verið að loka stöðum sínum.

Aðrir hlutir eru líka að leggjast með krónunni þessa dagana. Við erum alveg sátt við núverandi gengi sem er á ágætis stað.

„Aðrir hlutir eru líka að leggjast með krónunni þessa dagana,“ bætir Ásgeir við, og segir að gjaldeyrismarkaðurinn sé í nokkuð góðu jafnvægi. „Við erum alveg sátt við núverandi gengi sem er á ágætis stað,“ segir seðlabankastjóri, en gengi krónunnar gagnvart evru hefur hækkað um liðlega þrjú prósent frá áramótum og stendur nú í 143 krónum.

Fasteignir verði akkeri fyrir verðbólgu þegar líður á árið

Ekkert lát er á áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði og samkvæmt nýjustu tölum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 22,5 prósent síðasta árið. Í riti Seðlabankans segir að allt bendi til að „áhætta á íbúðamarkaði hafi aukist“ og að líkur á „stöðnun raunverðs eða jafnvel lækkun þess hafa aukist.“ Það byggist á því að aukið misvægi sé á milli fasteignaverðs og þeirra þátta sem alla jafnan ráða þróun þess. Samhliða því hefur verið töluverður skuldavöxtur hjá heimilum og kaupendur fyrstu fasteignar tekið á sig aukna veðsetningu og þyngri greiðslubyrði en áður.

Fjármálastöðugleikanefndin telur samt aðhaldsstig lánþegaskilyrða vera nægjanlegt á þessum tímapunkti. Af hverju ákvað nefndin ekki að grípa þar til frekari aðgerða?

„Við viljum aðeins bíða og sjá áhrif fyrri ákvarðana [hækkun á veð- og greiðslubyrðarhlutföllum] koma betur fram. Ég tel samt að miðað við stöðuna eins og hún er núna á fasteignamarkaði þá verði hann akkeri fyrir verðbólguna þegar fram í sækir á þessu ári, að því gefnu að það náist stöðugleiki á aðra þætti,“ útskýrir Ásgeir, bætir við:

„Við eigum alveg nægt landrými til að byggja og ég held að það sé aðeins tímaspursmál hvenær byggingargeirinn muni taka við sér.“

Nú sjá verktakar mögulega fram á skort á aðföngum og þá er óvissa um hversu miklar verðhækkanir eru í pípunum, einkum á ýmsum hrávörum, sem gæti valdið því að byggingarframkvæmdir tefjist. Er ekki hætta á að þessi skortur á framboði eigna muni því vara enn lengur en ella?

„Það er alveg rétt og eitthvað sem við í Seðlabankanum þurfum að velta fyrr okkur,“ svarar Ásgeir, og bendir á að það sé nánast enginn atvinnugrein sem er jafn háð innfluttum aðföngum eins og byggingargeirinn.


Tengdar fréttir

Krafa ríkisbréfa rýkur upp fyrir fimm prósent, ekki verið hærri í þrjú ár

Lánskjör ríkissjóðs við að fjármagna sig á innlendum skuldabréfamarkaði hafa farið hratt versnandi á undanförnum vikum samhliða því að fjárfestar óttast að verðbólgan muni reynast mun meiri en áður var spáð. Þar ræður mestu hækkandi hrávöruverð á alþjóðamörkuðum vegna stríðsátakanna í Úkraínu.






×