Körfubolti

Enginn veit hvar ein besta körfuboltakona heims er niðurkomin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Brittney Griner er leikmaður bandaríska landsliðsins og ein besta körfuboltakona heims.
 Brittney Griner er leikmaður bandaríska landsliðsins og ein besta körfuboltakona heims. AP/Eric Gay

Bandaríska körfuboltakonan Brittney Griner var handtekin á flugvelli í Rússlandi fyrir mánuði síðan. Síðan veit enginn hvað varð um hana.

Griner er án efa ein besta körfuboltakona heims og margir hafa gagnrýnt áhugaleysið á hennar máli. Það er alveg ljóst að ef að einn besti leikmaður NBA-deildarinnar lenti í hennar stöðu þá myndi heyrast meira.

Þeir hinir sömu vilja vekja athygli á stöðu Griner sem er líklega í fangelsi í Rússlandi þótt enginn viti nákvæmlega hvar hún sé.

„Hvernig getur bandarísk körfuboltastjarna bara horfið?“ er fyrirsögn á grein Holly Honderich fyrir vef breska ríkisútvarpsins. Þar fer hún einmitt yfir þetta mál og af hverju það heyrist ekki meira í fjölmiðlum um stöðu hennar.

Það er samt augljóst að Rússar ætla að nota hana sem peð í pólitískri baráttu í tengslum við innrás Rússa í Úkraínu.

Griner var handtekin á flugvelli fyrir utan Moskvu og Rússar saka hana um að flytja eiturlyf inn í landið. Efnið fannst í vökva sem hún notaði til að veipa. Hún á yfir höfði sér tíu ára fangelsi verði hún dæmd sek.

Hún var þarna komin til Rússlands til að spila fyrir UMMC Yekaterinburg í Euroleague eins og hún hefur gert frá árinu 2014 meðan WNBA-deildin er í fríi.

Það eru einmitt þessir samningar í Evrópu sem eru að færa bestu körfuboltakonunum stærsta hlutann af launum sínum. WNBA-leikmennirnir fá allt að fimm sinnum betur borgað í Rússlandi en í WNBA.

Griner spilar með Phoenix Mercury í WNBA-deildinni og hún hefur unnið gull á Ólympíuleikunum með bandaríska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×