Innlent

237 hafa sótt um vernd hér á landi frá því að átökin hófust

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Hátt í þrjár milljónir manna hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu undanfarnar vikur. 
Hátt í þrjár milljónir manna hafa flúið stríðsátökin í Úkraínu undanfarnar vikur.  AP/Markus Schreiber

Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir tæplega þremur vikum hafa 237 einstaklingar með úkraínskt ríkisfang komið til Íslands og sótt um vernd. Miðað við þann fjölda er áætlað að 280 sæki um vernd það sem eftir er mars. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu frá landamærasviði ríkislögreglustjóra.

Meirihluti þeirra sem sótt hafa um vernd eru konur og börn, eða 192 í heildina. Síðastliðna sjö daga hafa 134 sótt um vernd eða að meðaltali 19 á dag. Samhæfingarstjórn almannavarna hefur verið virkjuð vegna komu flóttamanna til landsins og fundar hún annan hvern dag.

Helstu verkefni samhæfingarstjórnarinnar eru nú meðal annars að finna stærra og hentugra húsnæði fyrir móttökumiðstöð til að ráða við aukningu í fjölda umsækjenda, tryggja langtíma- og skammtímahúsnæði, og tryggja mannafla og fjármagn.

Öll búsetuúrræði hjá sveitarfélögunum sem Útlendingastofnun er með samninga við eru fullnýtt og er heildarnýting skammtímaúrræða sem stofnunin hefur yfir að ráða komin í 74 prósent nýtingu. 649 einstaklingar eru nú í þjónustu hjá Útlendingastofnun, þar af 107 með tengsl við Úkraínu.

Að því er kemur fram í stöðuskýrslunni hafa nú hátt í þrjár milljónir manna þurft að flýja Úkraínu til nágrannaríkja í Evrópu frá því að stríðsátökin hófust en rúmlega helmingur þeirra hefur leitað til Póllands.

Evrópuríki hafa flest virkjað sínar viðbragðsáætlanir til að bregðast við miklum fjölda flóttamanna en gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra sem eru að flýja stríðsátökin muni halda áfram að aukast og er nú áætlað að allt að fimm milljónir einstaklinga muni flýja.

Við fylgjumst ítarlega með stöðu mála milli Úkraínu og Rússlands í vaktinni hér á Vísi. 


Tengdar fréttir

Þúsundir Úkraínumanna snúa til baka í stríðið

Þúsundir Úkraínumanna hafa snúið til baka til heimalandsins til að deila örlögum með fjölskyldu sinni og eða taka þátt í stríðinu. Enn hefur ekki tekist að koma hjálpargögnum til stríðshrjáðra í Mariupol og Rússar hertu árásir sínar á Kænugarð síðast liðna nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×