Innherji

Hrein framvirk gjaldeyrisstaða stækkaði um 139 milljarða frá byrjun árs 2021

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Auknar heimildir til afleiðuviðskipta skýra mögulega hluta af aukningu framvirkra viðskipta.
Auknar heimildir til afleiðuviðskipta skýra mögulega hluta af aukningu framvirkra viðskipta. Bernhard Richter/Getty

Á síðasta ári mátti greina aukinn áhuga viðskiptavina hjá bönkunum á því að verja sig fyrir styrkingu krónunnar. Sést það bæði á framvirki stöðu bankanna í erlendum gjaldmiðli og fjölda samninga og mótaðila í slíkum samningum. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands birti í morgun.

Bráðabirgðatölur fyrir hreina framvirka stöðu bankanna þar sem króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli var jákvæð um 139 milljarða króna í lok febrúar en til samanburðar var hún nálægt núlli í byrjun árs 2021.

Auknar heimildir til afleiðuviðskipta skýra mögulega hluta af aukningu framvirkra viðskipta á seinni árshelmingi 2021 og það sem af er ári. Um mitt ár 2021 voru samþykkt ný lög um gjaldeyrismál og strax í kjölfarið setti Seðlabankinn nýjar reglur um afleiðuviðskipti með íslensku krónuna. 

Samkvæmt nýju reglunum er öllum frjálst að eiga framvirk viðskipti með krónuna en áður fyrr þurfti að sýna fram á að viðskiptin væru til þess fallin að verja ákveðið gjaldeyrismisvægi, ýmist á efnahagsreikningi eða í greiðsluflæði vegna utanríkisviðskipta.

Tölur Seðlabankans sýna einnig verulega fjölgun afleiðusamninga í bókum bankanna. Þeir voru rúmlega 180 talsins í lok febrúar samanborið við rúmlega 40 í byrjun árs 2021.

„Hækkun á gengi krónunnar um 2,5 prósent í fyrra og hreyfingar í gengi krónunnar það sem af er ári eiga meðal annars rætur sínar að rekja til þessara framvirku viðskipta. Segja má að vænt framtíðargjaldeyrisflæði sé þegar búið að hafa áhrif á gengi krónunnar að einhverju leyti,“ segir í ritinu.

Einnig kemur fram að lífeyrissjóðir hafi keypt erlendan gjaldeyri fyrir um 87 milljarða króna á árinu 2021 og selt fyrir um 34 milljarða. Hrein gjaldeyriskaup þeirra voru því um 53 milljarða, sem er svipuð fjárhæð og árið 2020.

„Fjölgaði í hópi lífeyrissjóða sem seldu gjaldeyri en salan er þó eftir sem áður mikið til bundin við fáa sjóði sem eru nálægt innri viðmiðum um hlutfall eigna í erlendum gjaldeyri af heildareignum,“ segir í ritinu.

Eins og Innherji greindi frá telja forsvarsmenn lífeyrissjóðanna að ekki sé gengið nógu langt í frumvarpsdrögum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um auknar heimildir þeirra til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum.

Í frumvarpinu, sem var nýlega birt í samráðsgátt stjórnvalda, er lagt til að svigrúm lífeyrissjóðanna til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum sé rýmkað þannig að lögbundið hámark erlendra eigna verður fært úr því að vera að hámarki 50 prósent af heildareignum sjóðanna upp í 65 prósent. Á þessi breyting taka að gildi í fimmtán jafn stórum skrefum á árunum 2024 til 2038.

Hlutfallsleg vægi erlendra eigna af heildareignasöfnum allra lífeyrissjóða landsins hefur farið stöðugt vaxandi frá afnámi fjármagnshafta árið 2016 og í lok síðasta árs var það 36 prósent að meðaltali. Í tilfelli tveggja stærstu sjóðanna – LSR og LIVE – er hlutfallið hins vegar komið undir 45 prósent sem gerir þeim að óbreyttu ókleift að auka það frekar án þess að eiga hættu á að fara upp fyrir þakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×