Erlent

Rússar skutu al­­mennan borgara sem hafði hendur á lofti til bana

Árni Sæberg skrifar
Rússnesk skriðdrekasveit drap manninn.
Rússnesk skriðdrekasveit drap manninn. Stringer/Getty

Þann 7. mars síðastliðinn skutu rússneskir hermenn almennan úkraínskan borgara til bana þrátt fyrir að hann hafi reitt hendur á loft.

Þýska sjónvarpsstöðin ZDF hefur myndefni úr dróna undir höndum sem sýnir rússnesku hermennina skjóta manninn til bana á vegi örfáa kílómetra frá Kænugarði.

Myndbandið sýnir manninn stöðva bifreið sína þegar hann sér rússneska skriðdrekahersveit í vegkantinum. Hann stígur síðan út úr bílnum með hendur á lofti en er skotinn nánast samstundis.

Fundu drónaflugmanninn

Fréttaskýringaþætti ZDF, Frontal, barst myndefnið frá ónafngreindum heimildarmanni og fréttamenn ákváðu að nauðsynlegt væri að staðreyna sannleiksgildi myndbandsins.

„Til að sannreyna það leituðum við drónaflugmannsins. Við fundum hann í kjallara í Kænugarði,“

Sá heitir Zanoza og er sjálfboðaliði í Úkraínuher og greindi stríðsfréttariturum Frontal frá því sem hann sá þann 7. mars.

„Faðirinn steig út úr bílnum, lyfti höndum hátt í loft, og var einfaldlega skotinn af rússneskum hermönnum,“ segir hann.

Fréttaritarar gátu staðfest staðsetningu og tímasetningu skotárásarinnar með því að afla frekari myndbanda af henni.

Drepinn fyrir framan fjölskyldu sína

„Svo virðist sem þeir hafi framið stríðsglæp. Þetta er almennur borgari sem er skotinn, og kona hans og dóttir eða sonur, það sést ekki skýrt á myndbandi hvors kyns barnið er, voru síðan leidd á brott af rússnesku hermönnunum,“ segir Arndt Ginzel, fréttaritari Frontal í Úkraínu.

„Myndefnið frá 7. Mars sýnir að fullyrðing Pútíns, um að innrás Rússa í Úkraínu sé sérstök hernaðaraðgerð þar sem engir almennir borgarar eru drepnir, er ekkert annað en lygi,“ segir í lok fréttar Frontal sem sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×