Innlent

„Ég er ekki hálfviti – við ættum að ganga í Evrópusambandið“

Jakob Bjarnar skrifar
Bubbi Morthens, holdgervingur þjóðarsálarinnar, hefur fram til þessa verið andvígur inngöngu Íslands í ESB. En hann hefur nú breytt um skoðun.
Bubbi Morthens, holdgervingur þjóðarsálarinnar, hefur fram til þessa verið andvígur inngöngu Íslands í ESB. En hann hefur nú breytt um skoðun. Foto: Bubbi Morthens/Egill

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens, holdgervingur íslensku þjóðarsálarinnar, er kominn á þá skoðun að réttast sé fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Afstaða til ESB hefur lengi verið eitt af þeim álitaefnum sem hefur klofið þjóðina. Bubbi segir, í samtali við Vísi, að hans afstaða til þessa hafi verið sú að vera andvígur því að ganga í ESB. En nú telur hann tímabært að ræða það í fullri alvöru hvort ekki sé vert að ganga í ESB, sama hvað andstæðingar aðildar segja. Innrásin í Úkraínu hafi breytt stöðunni yfir nóttu. Veröldin sem var er horfin. Íslendingar séum of berskjaldaðir.

„Ég er ekki hálfviti - við ættum að ganga í Evrópusambandið. Þegar ég sé hvað er að gerast á bæjarhlaðinu finnst mér þetta nú vera algjörlega gild umræða og ég er kominn á að við eigum að ganga í Evrópusambandið. ég er kominn þangað og tel það okkur til góðs.“

Bubbi segist afstöðu sína ekki grundvallast á gjaldmiðlinum, Evrunni, þeirri sem ríka fólkið og útgerðin notar en við hin fáum ekki að nota.

„Heldur öryggi þjóðanna. Ég tel, eins og staðan er í dag, mjög mikilvægt fyrir land eins og Ísland að taka þessa afstöðu. Við ætlum að ganga í Evrópusambandið á þeim forsendum.“

Bubbi vísar þar til ógnarinnar sem stafar af Pútín. „Og þeir eru fleiri eins og hann. Við erum komin á þennan stað.“

Og Bubbi er ekki einn á báti frekar en fyrri daginn. Nú styðja 47 pró­sent lands­manna aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu, en 33 pró­sent eru henni andvígir. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og er viðsnúingur frá fyrri mælingum.


Tengdar fréttir

Sakar Loga um ó­dýra hræðslu­pólitík

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður íslandsdeildar NATO-þingsins sakar formann Samfylkingarinnar um ódýra hræðslupólitík, en hann sagði í dag að tilefni væri til að setja umsókn um aðild að Evrópusambandinu aftur á dagskrá.

Segir fjarri lagi að brýnt sé að sækja um aðild að ESB

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir með miklum ólíkindum að því skuli haldið fram að brýnt sé að sækja um aðild að ESB. Hann fagnar aukinni umræðu um Evrópusambandið en segir að Sjálfstæðsiflokkurinn verði ávallt á móti inngöngu í þeirri umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×