Ávöxtunarkafa lengri óverðtryggðra ríkisskuldabréfa – bæði þau sem eru á gjaldadaga árið 2028 og 2031 – fór upp fyrir fimm prósent við lokun skuldabréfamarkaða í gær en það í fyrsta sinn sem hún mælist svo há frá því í byrjun marsmánaðar árið 2019. Krafan á tíu ára skuldabréf ríkissjóðs hefur þannig hækkað um nærri 90 punkta frá áramótum en þá stóð ávöxtunarkrafan í 4,15 prósentum.
Á sama tíma og fjárfestar eru að selja óverðtryggð ríkisbréf, sem skilar sér í hækkandi ávöxtunarkröfu þeirra, hefur verið mikil ásókn í verðtryggða vexti í því skyni að tryggja sig fyrir versnandi verðbólguhorfum.
Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa á lengri endanum (RIKS 30) hefur samtímis þessari þróun meðal annars lækkað úr 0,7 prósentum í 0,20 prósent frá því í lok janúar – þá hækkaði árstaktur verðbólgunnar í 5,7 prósent, langt umfram spár greinenda – og hefur ekki mælst lægri frá því í september 2020. Sama á við um verðtryggða ríkisskuldabréfaflokkinn RIKS26 en ávöxtunarkrafa hans hefur hríðfallið síðustu vikur og er núna neikvæð um 0,69 prósent. Til samanburðar er krafan á óverðtryggð ríkisskuldabréf með sambærilegan líftíma núna í 4,95 prósentum.
Hækkandi ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisbréfum hefur áhrif á fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila. Bankarnir fjármagna til að mynda fasteignalán til heimila með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og viðskipti með þau bréf fylgja þróun á ríkisbréfamarkaðnum.
Eins hefur skuldabréfaútgáfa fyrirtækja vaxið á undanförnum árum og hækkandi ávöxtunarkrafa hefur áhrif því á þeirra fjármagnskostnað. Þá eru áhættulausir vextir ríkisskuldabréfa grunnurinn í allri verðmyndun á hlutabréfum.
Afleiðingarnar af stríðsátökunum birtast okkur meðal annars í miklum verðhækkunum á olíu og hveiti. Tunnan af Brent-Norðursjávarolía hækkað mest um liðlega 40 prósent eftir innrás Rússa í Úkraínu og efnahagsþvingana Vesturveldanna í kjölfarið – sú hækkun hefur núna gengið talsvert til baka og er verðið komið undir 100 dollara – og öðrum hrávörum sem veldur fjárfestum áhyggjum um að sú mikla og vaxandi verðbólga sem hefur mælst í Evrópu og Bandaríkjunum að undanförnu muni ekki ganga niður á næstunni eins og vonir stóðu áður til.
Ásgeir Jónsson seðabankastjóri og Unnur Gunarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, hafa sagt að stríðið muni hafa „veruleg og mögulega ófyrirséð áhrif“ á efnahagsframvinduna hér á landi í ljósi þeirra þvingunaraðgerða sem gripið hefur verið til gegn Rússlandi.
„Útilokun Rússlands frá vestrænum fjármálamörkuðum mun valda álagi á fjármálastofnanir í Evrópu og hefur þessi útilokun þegar komið nokkrum bönkum í Evrópu í koll,“ kom fram í formála þeirra í ritinu Fjármálaeftirlit 2022 sem birtist fyrir helgi. Þá sé ljóst að refsiaðgerðirnar muni „auka á þann verðbólguþrýsting sem var þegar til staðar“ vegna farsóttarinnar sem hafði leitt til hærra orkuverðs og framboðshnökra.
Vaxandi verðbólga og „óumflýjanlegar aðgerðir“ seðlabanka til þess að hafa hemil á henni munu fyrirsjáanlega fela í sér áskoranir fyrir fjármálastofnanir beggja vegna Atlantshafsins.
Næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar Seðlabankans er ekki fyrr en 4. maí næstkomandi.
Hagfræðingar segja óljóst hvort efnahagslegu afleiðingarnar af stríðinu í Úkraínu muni hægja á vaxtahækkunarferli Seðlabankans. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, hefur sagt að þótt verðbólguhorfur hafi versnað umtalsvert þá enn sé útlit fyrir að hagvöxtur verði þokkalegur á þessu ári en síðasta hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir þetta ár var lækkuð úr 5,1 prósent í 4,8 prósent.
„Vissulega hafa líkurnar á minni og færri vaxtahækkunum aukist, en ég tel að vaxtahækkanir séu enn þá í huga peningastefnunefndar,“ sagði Erna Björg, í viðtali við Innherja í síðustu viku.