„Maður skiptir um skoðun á hverjum degi,“ segir Margeir, spurður hversu bjartsýnn hann er á að Úkraínumenn nái að halda Rússum í skefjum til lengdar.
Bank Lviv rekur alls sautján útibú í vesturhluta Úkraínu og eitt í Kænugarði en það hefur verið lokað frá því að innrásin hófst þann 24. febrúar. Eins og nafn bankans ber með sér eru höfuðstöðvarnar í Lviv sem liggur nærri landamærum Póllands.
Munurinn á daglegu lífi í vesturhluta Úkraínu annars vegar og austurhlutanum hins vegar er að sögn Margeirs eins og dagur og nótt. Í Lviv hefur lífið nokkurn veginn gengið sinn vanagang en átökin hafa þó færst óhugnanlega nálægt borginni á síðustu dögum. Aðfararnótt sunnudags var tugum flugskeyta skotið á herstöð nærri borginni og yfirvöld segja 35 hafa látist.
Nálægðin við Pólland hefur svo gert Lviv að miðstöð fyrir flóttamenn úr austrinu. Áætlað er að fleiri en 200 þúsund flóttamenn hafi lagt leið sína til borgarinnar frá því að innrásin hófst en til samanburðar er íbúafjöldi hennar ríflega 700 þúsund. „Það er allt troðfullt, bæði í Lviv og í héraðinu í heild sinni. Öll gistiaðstaða er uppseld,“ segir Margeir.
Aðspurður segir Margeir að það hafi komið honum á óvart að Pútín skyldi láta til skara skríða.
„Árásin kom mér í opna skjöldu. Ég hafði fylgst grannt með fréttum frá Bandaríkjunum frá því í desember um liðsöfnuð Rússa nærri landamærunum en ég trúði hreinlega ekki að þeir væru svo vitlausir að láta verða af þessu,“ segir Margeir.
Um leið og innrásin hófst brást Seðlabanki Úkraínu við með því að setja stífar reglur um daglegar úttektir af reikningum og gjaldeyrisreikningar voru frystir. „Þetta kom í veg fyrir áhlaup á bankakerfið,“ segir Margeir.
„Á síðustu árum hefur verið uppgangur í efnahagslífinu og gjaldeyrisvaraforðinn er mjög sterkur. Mér sýnist að Úkraína muni komast hjá greiðslufalli á ríkisskuldum og eins því að gjaldmiðillinn hrynji.“
Maður þarf helst að starfa í þessu umhverfi til að sjá hversu skelfilega niðurdrepandi áhrif spilling hefur á efnahagslífið
Efnahagsleg áhrif stríðsins á Úkraínu munu þó á endanum ráðast af því hvort Rússar nái að hernema stóran hluta landsins.
„Ef svo fer verður sá hluti í efnahagslegri rúst, rétt eins og Donetsk og Luhansk eru. En Úkraína er ríkt af auðlindum og fólkið er mjög vinnufúst. Það hefur verið mikil framþróun í hugbúnaðariðnaðinum, hér vinna þúsundir manna við forritun og öll stærstu tæknifyrirtæki heims eru með útibú í Úkraínu,“ segir Margeir.
„Þegar Úkraínumenn fá að vera í friði, þegar landið er laust við ytri áföll, þá gengur mjög vel. Og það gekk mjög vel fram til ársins 2009 þegar alþjóðlega fjármálahrunið kom illa niður á Úkraínu. Í kjölfarið tók við gjörspilltur forseti, Janúkóvíts, og spillingin náði hámarki. Spilling er stærsta efnahagslega vandamál Úkraínu og maður þarf helst að starfa í þessu umhverfi til að sjá hversu skelfilega niðurdrepandi áhrif spilling hefur á efnahagslífið.“
Geturðu lýst spillingunni nánar?
„Ég slapp tiltölulega vel og kunningjar mínir hér í Úkraínu sögðu það væri vegna þess að ég væri útlendingur. En sem sagt, vinir og vandamenn Janúkóvíts yfirtóku banka og önnur fyrirtæki með því að bjóða smánarlegar fjárhæðir í fyrirtækin og segja við eigendurna: „Ef þú selur ekki verður þetta tekið af þér með valdi.“ Og þeir nutu liðveislu saksóknara og annarra opinberra aðila í því að þvinga menn til að láta fyrirtæki sín af hendi.“
Þegar Rússar hernámu Krímskaga árið 2014 varð altjón á lánasöfnum banka í Úkraínu og þannig þurrkaðist eigið fé fjármálakerfisins upp. „Það þurfti að endurfjármagna nánast alla banka en Bank Lviv naut góðs af því að vera aðallega með starfsemi í vesturhlutanum,“ segir Margeir.
Ég er ekki frá því að þeir hafi metið stöðuna þannig að einhver hluti Úkraínumanna myndi taka Rússum fagnandi. En það var byggt á algjörum misskilningi
Í kjölfarið veittu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu fjárhagsaðstoð til bankakerfisins í Úkraínu og sett voru skilyrði um að tekið yrði á spillingu. Aðhald frá alþjóðastofnunum hefur haft töluverð áhrif.
„Það mætti ganga hraðar að kveða niður þennan ófögnuð en það hefur þó töluverður árangur náðst. Á síðustu sjö árum hefur landið ekki orðið fyrir neinum áföllum og efnahagurinn var á réttri leið,“ segir Margeir. Hann bætir við að innganga í ESB – stjórnvöld sendu formlega beiðni um inngöngu eftir að stríðið hófst – yrði mikið framfaraskref.
„Það yrði stórkostlegt, bæði efnahagslega og stjórnmálalega, ef Úkraína fengi inngöngu í Evrópusambandið. Ég fylgdist með því þegar Eystrarsaltslöndin gengu í Evrópusambandið. Þá varð gríðarlega öflug framþróun enda hélt Evrópusambandið uppi miklum aga og drap niður spillingu.“
Framfarir Úkraínu á síðustu árum kunna raunar, að sögn Margeirs, að vera ein ástæða fyrir ákvörðun rússneskra stjórnvalda að hefja innrás.
„Það má segja að Úkraína hafi verið að sigla fram úr Rússlandi og Hvíta- Rússlandi og mig grunar að Rússar hafi litið svo á að þetta væri þeirra síðasta tækifæri. Ég er ekki frá því að þeir hafi metið stöðuna þannig að einhver hluti Úkraínumanna myndi taka Rússum fagnandi. En það var byggt á algjörum misskilningi,“ segir Margeir.
„Þótt mjög stór hluti Úkraínumanna, að minnsta kosti helmingur, hafi rússnesku sem móðurmál, þá þýðir það ekki að þeir séu hallir undir Rússa eða vilji ganga inn í Rússland. Í borgum eins og Mariupol og Kharkiv, þar sem nánast allir tala rússnesku, er barist til síðasta manns. Baráttuviljinn er gríðarlegur. Mér skilst að hér í Lviv skrái 400 manns sig í herinn á hverjum degi og kaupsýslumenn skjóta saman fé til að kaupa vistir og hergögn frá Evrópu.“
Árangur Rússa mjög slakur
Eitt af því sem hefur litað umfjöllun um hernað Rússa í Úkraínu er hversu brösuglega hann gengur. Aðgerðir þeirra eru sagðar ósamhæfðar og bera vott um reynsluleysi. Hernaðarsérfræðingum virðist sem her Rússa sé illa búinn hergögnum og illa þjálfaður. Margeiri segir árangur Rússa mjög slakan.
„Úkraínumenn gera mikið úr sínum árangri. Þeir hafa náð að valda miklu manntjóni hjá Rússum og eins náð að skjóta niður flugvélar og skriðdreka. Eina stórborgin sem Rússar hafa náð er Kherson í suðrinu og ég verð að segja að það er mjög slakur árangur. Það er ljóst að þeir héldu að þeir næðu Kænugarði á nokkrum dögum þannig að þetta er greinilega ekki að ganga samkvæmt áætlun.“
Hafa Vesturlönd gert nóg til að aðstoða Úkraínu að þínu mati?
„Ég held að efnahagslegar þvinganirnar séu mjög kröftugar, sérstaklega sú aðgerð að frysta fjármuni rússneska seðlabankans. Það er gífurlega stórt skref og ég held að Rússar muni finna mjög fyrir því. Eins er verið að senda gríðarlega mikið af fjármagni, birgðum og hergögnum til þess að Úkraínumenn geti haldið áfram þessari baráttu. Í Úkraínu eru margir óánægðir með að Vesturlönd skuli ekki gera meira hernaðarlega en ég skil að þau vilji ekki hefja beint stríð.“
Bankakerfið enn vanþróað
Margeir hefur verið kjölfestufjárfestir í Bank Lviv frá árinu 2006. Hann átti bankann að fullu til ársins 2018 þegar svissneska eignastýringarfélagið responsAbility keypti 51 prósenta hlut í bankanum. Og nýlega var greint frá því að Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nefco) hefði eignast tæplega 14 prósenta hlut. Eftir innkomu Nefco fer Margeir með rúm 37 prósent og svissneska félagið með tæp 49 prósent.
Bank Lviv hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Eignir bankans nema 200 milljónum evra, jafnvirði 29 milljarða króna. „Við erum tíundi stærsti bankinn í Vestur-Úkraínu og í landinu í heild erum við númer 25. Bankarnir sem eru stærri en við eru fyrst og fremst ríkisbankarnir en ríkið á um 70 prósent af bankakerfinu. Einnig eru alþjóðlegir bankar eins og Raiffeisen frá Austurríki umfangsmiklir.“
Bank Lviv sérhæfir sig í lánum til lítilla og meðalstjórra fyrirtækja, landbúnaðar og umhverfisvænna verkefna. Í ljósi þess að bankinn er aðallega með starfsemi í vesturhluta landsins er útlit fyrir að hann verði fyrir minna tjóni en aðrir bankar, ekki síst þeir sem eru með lánasöfn í hernumdum héruðum.
Það sem upphaflega dró Margeir til Úkraínu árið 2006 var leit að vanþróuðu bankakerfi. „Ég tel mig nokkurn sérfræðing á þessu sviði enda hef ég unnið í banka frá árinu 1984. Ég byrjaði í 100 prósenta verðbólgu og mjög vanþróuðu bankakerfi á Íslandi.“
Bankakerfi Úkraínu er enn nokkuð vanþróað en Margeir bendir á að það sé ekki nema um 30 prósent af þjóðarframleiðslu landsins – í þróaðri löndum er stærð bankakerfisins jafnan tvöföld eða þreföld þjóðarframleiðsla – og vextir á lánum veittum í hryvnum, gjaldmiðli Úkraínu, eru því háir. Hvernig bankakerfið nær að standa af sér stríðið skipti því sköpum fyrir efnahagsframfarir næstu ára.