Sport

Metárangur hjá úkraínska íþróttafólkinu á ÓL á meðan ráðist er inn í land þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úkraína vann meðal annars þrefalt í einni grein skíðaskotfiminnar á Ólympíumóti fatlaðra og hér sjást þær Iryna Bui (gull, í miðju), Oleksandra Kononova (silfur, til vinstri) og Liudmyla Liashenko (brons) sýna verðlaun sína á pallinum.
Úkraína vann meðal annars þrefalt í einni grein skíðaskotfiminnar á Ólympíumóti fatlaðra og hér sjást þær Iryna Bui (gull, í miðju), Oleksandra Kononova (silfur, til vinstri) og Liudmyla Liashenko (brons) sýna verðlaun sína á pallinum. AP/Thomas Loveloc

Úkraína hefur aldrei unnið fleiri verðlaun á einum Ólympíuleikum en á Vetrarmóti fatlaðra sem lauk um helgina. Aðeins heimafólk frá Kína vann fleiri verðlaun á leikunum í ár.

Það er mjög erfitt að vera Úkraínumaður í dag á meðan Rússar ráðast inn í landið með skelfilegum afleiðingum.

Á þessum hryllilegu tímum fyrir úkraínsku þjóðina þá hefur íþróttafólk landsins sýnt hetjulega framkomu þar á meðal á Ólympíumóti fatlaðra.

Úkraína vann alls 29 verðlaun á Vetrarólympíumóti fatlaðra þar af ellefu gullverðlaun, tíu silfurverðlaun og átta bronsverðlaun.

Kínverjar voru reyndar í algjörum sérflokki á heimavelli með 61 verðlaunapening og átján gullverðlaun en Úkraína gerði betur en Kanada og Frakkland sem komu næst á eftir.

Fyrir fjórum árum þá vann Úkraína 22 verðlaun þar af sjö gullverðlaun. Þá var þjóðin í sjötta sæti á verðlaunalistanum.

Andrew Parsons, forseti Ólympíunefndar fatlaðra, IPC, þakkaði úkraínska íþróttafólkinu sérstaklega fyrir hetjulega framgöngu sína í ræðu sinni á lokahátíð leikanna.

Ein af úkraínsku keppendunum fékk þó ekki tækifæri til að vinna verðlaun því hún treysti sér ekki til að keppa eftir að fréttir bárust af því að Rússar höfðu tekið fóður hennar höndum. Annar keppandi Úkraínu frétti það að hús hans í Kharkiv hafði verið sprengt í tætlur af rússneska hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×