Þetta segir meðal annars í formála Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, og Unnar Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits Seðlabankans, í ritinu Fjármálaeftirlit 2022 sem bankinn birti fyrir helgi.
Þar er bent á að eftirfylgnin með þeim efnahagslegum þvingunaraðgerðum sem Vesturveldin hafa gripið til gegn rússneskum stjórnvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum – og verða sífellt umfangsmeiri – verða á verksviði fjármálaeftirlits Seðlabankans og skapa þannig ný verkefni.
„Útilokun Rússlands frá vestrænum fjármálamörkuðum mun valda álagi á fjármálastofnanir í Evrópu og hefur þessi útilokun þegar komið nokkrum bönkum í Evrópu í koll,“ segja þau Ásgeir og Unnur. Þá sé ljóst að refsiaðgerðirnar muni „auka á þann verðbólguþrýsting sem var þegar til staðar“ vegna farsóttarinnar sem hafði leitt til hærra orkuverðs og framboðshnökra.
Vaxandi verðbólga og „óumflýjanlegar aðgerðir“ seðlabanka til þess að hafa hemil á henni munu fyrirsjáanlega fela í sér áskoranir fyrir fjármálastofnanir beggja vegna Atlantshafsins.
Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun febrúar tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta – úr 2 prósentum í 2,75 prósent – og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Verðlag hélt áfram að hækka í febrúar og mældist tólf mánaða verðbólga um 6,2 prósent borið saman við 5,7 prósent í janúar.
Frá síðustu verðlagsmælingu hefur stríðið í Úkraínu hefur haft víðtæk áhrif á hrávörumarkaði, einkum olíu og hveiti. Brent-hráolíuverð hækkaði mest um nærri 40 prósent frá því að innrás Rússa hófst aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar – verðið hefur hins vegar lækkað nokkuð síðustu daga og tunnan kostar núna um 113 dali – og hveitiverð um tugi prósenta.
Næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar Seðlabankans er ekki fyrr en 4. maí næstkomandi.
Hagfræðingar segja óljóst hvort efnahagslegu afleiðingarnar af stríðinu í Úkraínu muni hægja á vaxtahækkunarferli Seðlabankans. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, hefur sagt að þótt verðbólguhorfur hafi versnað umtalsvert þá enn sé útlit fyrir að hagvöxtur verði þokkalegur á þessu ári en síðasta hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir þetta ár var lækkuð úr 5,1 prósent í 4,8 prósent.
„Vissulega hafa líkurnar á minni og færri vaxtahækkunum aukist, en ég tel að vaxtahækkanir séu enn þá í huga peningastefnunefndar,“ sagði Erna Björg, í viðtali við Innherja í síðustu viku.
Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance, telur ljóst að efnahagshorfur beggja vegna Atlantshafsins séu orðnar mun dekkri en áður eftir að stríðsátökin hófust
„Hagvöxtur er að fara minnkandi í heiminum vegna innrásar Rússa og minni alþjóðlegra viðskipta og samhliða þeirri þróun sjáum við ört vaxandi verðbólgu sem þýðir að staða Seðlabanka Íslands, eins og annarra seðlabanka, verður mjög erfið varðandi næstu skref í vaxtahækkunarferlinu. Hann gæti þurft að hækka vexti ofan í versnandi efnahagshorfur og sviðsmynd um kreppuverðbólgu, tímabil sem einkennist af litlum hagvexti og mikilli verðbólgu, gæti mögulega verið að raungerast, að minnsta kosti í einhverjum löndum,“ sagði Valdimar í viðtali við Innherja síðastliðinn þriðjudag.
Hann bendir á að viðbrögð markaðarins á skuldabréfamarkaði að undanförnu séu að skila sér í umtalsvert hærri verðbólguvæntingum með ásókn í verðtryggðra vexti.
Fjárfestar hafa þannig meðal annars verið að kaupa verðtryggð íslensk ríkisskuldabréf, til að tryggja sig gegn verðbólgu sem þeir reikna með að verði meiri en áður var búist við, og á sama tíma selt óverðtryggð ríkisbréf.
Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa á lengri endanum (RIKS 30) hefur samtímis þessari þróun meðal annars lækkað úr 0,7 prósentum í 0,12 prósent á aðeins rúmlega einum mánuði og hefur ekki mælst lægri frá því í september 2020. Yfir sama tímabil hefur hins vegar ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa með sambærilegan líftíma (RIKB 31) hækkað úr um 4,6 prósentum í tæplega 5 prósent við lokun markaða síðasta föstudag og ekki verið hærri í meira en þrjú ár.
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, segist telja að Seðlabankinn horfi í vaxandi mæli til innlendra áhrifavalda verðbólgunnar. „Ég er ekki viss um að staðan þar hafi mikið breyst þótt augljóslega hafi verðbólguþrýstingur erlendis frá aukist. Verðbólgumarkmið bankans er frekar skýrt þótt einnig sé til staðar markmið um fjármálastöðugleika. Maður sér ekki að stríðsátökin ógni fjármálastöðugleika hérlendis, að minnsta kosti ekki enn þá.“
Á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd fyrr í þessum mánuði sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að Ísland yrði ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir. Hann benti á að verulega hefði dregið úr viðskiptum við Rússland frá árinu 2014 og að íslensk heimili horfðu ekki fram á aukinn kostnað við húshitun eins og þau fjölmörgu heimili í Evrópu sem kynt eru með jarðgasi frá Rússlandi.
Þá velti hann fyrir sér hvort stríðið myndi hafa ófyrirséð áhrif á heimshagkerfið í líkingu við áhrifin sem heimsfaraldur Covid hafði.
„Það gerði sér engin grein fyrir því hver áhrifin yrðu á heimshagkerfið,“ sagði Ásgeir og vísaði til aukinnar verðbólgu og bresta í framleiðslukeðjum heimshagkerfisins. „Þetta voru dómínóáhrif og mér finnst ekki ólíklegt að það komi dómínóáhrif af þessu stríði. Það er miklu meira mál en fólk gerir sér grein fyrir að taka Rússa út úr heimshagkerfinu.“