Enski boltinn

Markahæsti leikmaður knattspyrnusögunnar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Markið sögufræga í uppsiglingu.
Markið sögufræga í uppsiglingu. vísir/Getty

Cristiano Ronaldo bætti enn einni rósinni í hnappagat sitt þegar hann skoraði þrennu í 3-2 sigri Manchester United á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur tekið saman og haldið utan um mörk einstakra leikmanna frá því að byrjað var að iðka knattspyrnu og hefur Austurríkismaðurinn Josef Bican átt toppsætið en hann skoraði 805 mörk á ferli sínum með Slavia Prag og fleiri félögum frá 1931-1957.

Með þrennunni í gær er Ronaldo kominn með 807 mörk á mögnuðum ferli sínum en þetta var jafnframt í 59.skipti sem hann skorar þrennu á ferli sínum.

Glæstur ferill Ronaldo hófst í heimalandinu þar sem hann skoraði fimm mörk fyrir Sporting áður en hann var seldur til Man Utd átján ára gamall.

Ronaldo skoraði 118 mörk fyrir enska stórveldið á árunum 2003-2009 en þá gekk hann í raðir Real Madrid og skoraði þar 450 mörk í 438 leikjum. Sumarið 2018 færði kappinn sig um set til Juventus þar sem hann skoraði 101 mark á þremur leiktíðum eða þar til hann sneri aftur til Man Utd.

Þó ýmislegt hafi gengið á hjá Man Utd á yfirstandandi leiktíð hefur Ronaldo skilað sínu hvað varðar markaskorun og er hann markahæsti maður liðsins með átján mörk í 31 leik í öllum keppnum.

Með Portúgal hefur Ronaldo einnig átt magnaðan feril og skorað 115 mörk fyrir landslið sitt sem gerir hann einmitt að markahæsta landsliðsmanni knattspyrnusögunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×