Innherji

Tímaspursmál hvenær kaupaukar tengdir sjálfbærni spretta upp í Kauphöllinni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Aðeins eitt skráð fyrirtæki, Marel, hefur innleitt sjálfbærnitengda kaupauka. 
Aðeins eitt skráð fyrirtæki, Marel, hefur innleitt sjálfbærnitengda kaupauka.  sesame/Getty

Það er aðeins „tímaspursmál“ hvenær sjálfbærnitengdir kaupaukar verða innleiddir hjá fleiri skráðum félögum í Kauphöllinni. Kaupaukar af þessu tagi hafa rutt sér til rúms á erlendum hlutabréfamörkuðum og viðmælendur Innherja benda á að nýjungar á sviði sjálfbærni berist iðulega til Íslands með nokkurra ára töf.

„Með smá einföldun má segja að við Íslendingar séum nokkrum árum á eftir sjálfbærniþróuninni í Evrópu,“ segir Tómas N. Möller, formaður Festu — miðstöðvar um samfélagsábyrgð og yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

„Það kæmi mér því ekki á óvart að þetta yrði meira í umræðunni hér á landi á næstu misserum, sérstaklega í ljósi þess að sjálfbærnimál verða sífellt fyrirferðameiri í samskiptum stofnanafjárfesta og fyrirtækja.“

Marel er eina skráða íslenska fyrirtækið sem hefur innleitt sjálfbærnitengda kaupauka eftir því sem Innherji kemst næst. 

Könnun endurskoðunarrisans PwC á starfskjarastefnum fyrirtækja í FTSE100 vísitölunni, sem inniheldur hundrað stærstu fyrirtækin sem skráð eru í kauphöllinni í London, leiddi í ljós að 58 prósent höfðu tengt starfskjör forstjóra við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS-þættir) á síðasta ári. Aukningin milli ára var töluverð en árið 2020 var hlutfallið 45 prósent.

Stór ástæða fyrir þessari þróun er þrýstingur frá fjárfestum. Önnur nýleg könnun frá PwC sýndi að 68 prósent af stórum, alþjóðlegum stofnanafjárfestum væru þeirrar skoðunar að UFS-þættir ættu að vera á meðal þeirra viðmiða sem kaupaukar stjórnenda ráðast af og hartnær helmingur, 49 prósent, sagðist vera reiðubúinn að selja sig út úr fyrirtæki ef það legði ekki nægilega áherslu á UFS-þætti.

„Ég myndi telja að íslensk fyrirtæki sem erum með kaupaukakerfi á annað borð, muni líta þetta jákvæðum augum,“ segir Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í sjálfbærnimálum hjá Landsbankanum.

Aðalheiður Sveinbjarnardóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá LandsbankanumLandsbankinn

„Við erum nokkrum árum á eftir Evrópu í þessum efnum og miðað við það er aðeins tímaspursmál hvenær sjálfbærnitengdu kaupaukarnir verða innleiddir hér á landi.“

Aðalheiður segir að lífeyrissjóðirnir séu einu íslensku fjárfestarnir sem geta í krafti stærðar sinnar gert kröfur um innleiðingu þessara kaupauka. „En það gæti einnig komið þrýstingur erlendis frá þegar fyrirtæki sækja sér erlent fjármagn.“

Ekki þarf að leita langt aftur í tímann til að finna dæmi um þau áhrif sem erlendir fjárfestar geta haft á stefnu skráðra íslenskra fyrirtækja í UFS-málum. Bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Eaton Vance Management, sem var umsvifamesti erlendi fjárfestirinn í Kauphöllinni um nokkurra ára skeið, varð þannig ágengt í því koma á fót tilnefningarnefndum í fjölda Kauphallarfélaga á árunum 2018 og 2019.

Og erlendir fjárfestar eru nú þegar farnir að spyrja íslensk félög hvort UFS-þættir séu hluti af launapakka stjórnenda. Samkvæmt heimildum Innherja voru sjálfbærnitengdir kaupaukar á meðal þeirra atriða sem erlendir fjárfestar spurðu stjórnendur Íslandsbanka um í aðdraganda hlutafjárútboðs bankans í fyrra.

Það gæti einnig komið þrýstingur erlendis frá þegar fyrirtæki sækja sér erlent fjármagn

Í útboðinu nam úthlutun til erlendra fjárfesta um 10,5 prósentum af heildarhlutafé Íslandsbanka en samkvæmt hluthafalista bankans frá því í byrjun þessa árs hafði hann minnkað niður í 7,4 prósent. Aftur á móti hélst hlutur erlendra langtímafjárfesta (e. long only investors) nokkuð stöðugur. Um áramótin hafði hann minnkað úr 7,4 prósentum niður í 7 prósent.

Skylda eða góður bisness?

Þótt yfirgnæfandi meirihluti stofnanafjárfesta segi UFS-þætti hafa mikið vægi í ákvarðanatöku eru skiptar skoðanir á hversu langt eigi að ganga. Um helmingur þeirra, samkvæmt ofangreindri könnun PwC, kvaðst ekki vilja að fórna neinni ávöxtun fyrir áherslur á umhverfislega- og félagslega þætti í fjárfestingaákvörðunum sínum á meðan 34 prósent voru viljug til þess.

„Margir telja að það sé frekar löggjafans en fyrirtækja og fjárfesta að leggja línurnar varðandi sjálfbærni í rekstri. Að löggjafinn setji reglurnar, það sé svo fyrirtækjanna að spila innan þess ramma,“ útskýrir Tómas hjá Festu.

„Önnur nálgun er að fyrirtæki sem horfa til sjálfbærni umfram lagaskyldu tryggi betur rekstrargrundvöll sinn til framtíðar og þar með verðmætasköpun fyrir hluthafa. Hér skiptir málið að fyrirtækin samþætti nálgun á umhverfis- og samfélagsmál við fjárhagslega verðmætasköpun í kjarnastarfsemi sinni. Ef þess nálgun er almennt samþykkt hér á landi má búast við að UFS-þættir verði eitt af viðmiðunum í kaupaukakerfum.“

Þá bendir hann á að þróun ESB réttar skipti líka miklu máli því hún hafi bein áhrif á Íslandi í gegn um EES samninginn. Á næstunni stefna stjórnvöld á að innleiða margar nýjar reglugerðir og tilskipanir ESB sem tengjast beint hlutverk og skyldum fyrirtækja og fjárfesta í sjálfbærni. 

Allianz Global Investors, eitt stærsta sjóðastýringarfélag Evrópu, og Cevian Capital, einn stærsti vogunarsjóður Evrópu, eru á meðal þeirra sem hafa hvatt fjárfesta til að greiða atkvæði gegn starfskjarastefnum fyrirtækja í ár ef þær innihalda ekki sjálfbærnitengda kaupauka.

Tómas Njáll Möller, formaður Festu.VÍSIR/VILHELM

„Það er nauðsynlegt að nota starfskjör stjórnenda sem vopn í baráttunni gegn loftslagsvánni,“ sagði Harlan Zimmerman, stjórnandi hjá Cevian, í nýlegu viðtali við Financial Times. 

„Það er réttmætur ótti,“ bætti hann við, „að ef UFS-mælikvarðar eru óljósir þá verði þeir óskilvirkir og leiði til þess að stjórnendur fái greitt sama hvað. Þeir verða því að vera mælanlegir, gagnsæir og tengdir við loforðin sem fyrirtækin hafa gefið.“

Kevin Johnson, forstjóri kaffihúsakeðjunnar Starbucks, er einn af þeim sem fengu kaupauka á árinu 2021 fyrir að ná árangri í sjálfbærnimálum. Um tíu prósent af kaupaukanum sem Johnson fékk á síðasta ári – laun og kaupaukagreiðslur námu alls 20 milljónum dala, jafnvirði 2,6 milljarða króna – mátti rekja til viðleitni Starbucks til þess að útrýma plaströrum og samstarfs fyrirtækisins við kúabændur sem miðar að því að draga úr útblæstri metans. Önnur tíu prósent mátti rekja til þess að kaffihúsakeðjan náði markmiðum um að viðhalda fjölbreytni í starfsmannahópnum.


Tengdar fréttir

Þrjú fyrirtæki með yfir 90 prósent af kolefnisspori eignasafnsins

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur birt ítarlegt mat á UFS-þáttum eignasafnsins en á meðal þess sem matið varpar ljósi á er að sú staðreynd að rekja má meira en 90 prósent af kolefnisspori innlenda eignasafnsins til þriggja skráðra fyrirtækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×