Íslenski boltinn

Fyrirliði KR síðustu ár en ekki með í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Ingunn Haraldsdóttir var fyrirliði KR þegar liðið lék síðast í efstu deild, árið 2020.
Ingunn Haraldsdóttir var fyrirliði KR þegar liðið lék síðast í efstu deild, árið 2020. VÍSIR/VILHELM

Ingunn Haraldsdóttir mun ekkert leika með KR í Bestu deildinni í fótbolta í sumar eftir að hafa slitið hásin.

Þetta staðfesti Ingunn í samtali við Fótbolta.net þar sem fram kemur að hún hafi ætlað sér að spila með KR-ingum frá og með opnun félagaskiptagluggans í sumar en hann opnast 29. júní.

Ingunn fór frá KR til PAOK í Grikklandi í ágúst í fyrra en var áður fyrirliði KR-inga, sem unnu sig upp í Bestu deildina með því að vinna Lengjudeildina í fyrra.

Hún hugðist spila áfram með PAOK til loka tímabilsins í Grikklandi en koma svo heim í sumar og taka slaginn með KR í Bestu deildinni. Nú er ljóst að ekki verður af því.

Að því er fram kemur á Fótbolta.net fór Ingunn í aðgerð vegna hásinarslitsins í febrúar og má ætla að hún verði frá keppni í 6-8 mánuði.

Rebekka Sverrisdóttir tók við fyrirliðabandinu af Ingunni hjá KR-ingum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×