Handbolti

Stefán Arnarson: Markmiðið var að fara í úrslit

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var sáttur með farmiðann í úrslit
Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var sáttur með farmiðann í úrslit Vísir: Hulda Margrét

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var mjög sáttur með leik sinna kvenna þegar liðið lagði KA/Þór af velli í undanúrslitum Coca-cola bikarsins í handbolta í kvöld.

„Mér líður vel. Markmiðið var að fara í úrslit og þá er maður ánægður,“ sagði Stefán eftir leik.

Fram náði tökum á leiknum um miðbik fyrri hálfleiksins og leit aldrei til baka.

„Þetta var mjög sterkur leikur af okkar hálfu. Hafdís var frábær, vörnin góð og sóknarleikurinn var góður og þess vegna unnum við sannfærandi.“

KA/Þór tók alla þrjá titlana sem voru í boði í fyrra og gerði Fram slíkt hið sama árið 2020, aðspurður hvort þetta væri árið þeirra sagði Stefán:

„Þetta er mjög jafnt og það sem gerir kvennadeildina, mörg góð lið og þess vegna er maður ánægður að komast í úrslitaleikinn. Svo getur allt gerst, það eru sex lið sem geta tekið þessa titla. Að vísu bara tvö bikarinn en deildina og úrslitakeppnina, þá getur allt gerst. Það er mjög gaman og ég hef verið lengi í þessu og ég held að deildin hafi aldrei verið jafn sterk og er í dag.“

Fram fær annað hvort ÍBV eða Val í úrslitum. Stefán var ekki kominn nógu langt til þess að pæla hvorum andstæðingnum hann vill frekar mæta

„Nei þetta eru bæði jafn góð lið. Ég er allavega ekki kominn nógu langt til þess að pæla í því.“

Fyrir úrslitaleikinn á laugardaginn vill Stefán að stelpurnar mæti betur heldur en þær gerðu í síðasta úrslitaleik.

„Síðast unnum við val í undanúrslitum með smá mun og komumst svo í úrslit og gátum ekki neitt. Við þurfum að bregðast vel við og mæta betur en við gerðum síðast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×