„Fjármálakerfið á Íslandi hefur í gegnum tíðina verið stórt og þungt í vöfum. Gömlu bankarnir þrír hafa haldist í hendur í framþróun þess og neytendur virðast að litlum hluta hafa notið góðs af því í formi betri kjara,“ segir Hilmar Kristinsson, verkefnastjóri yfir Auði hjá Kviku banka.
Þegar Auður kom á markað vakti athygli margra að hún bauð upp á hæstu mögulegu innlánsvexti sem voru allt að tvöfalt hærri en innlánsvextir gömlu bankanna. Þetta gat Auður gert, að sögn Hilmars, vegna lítillar yfirbyggingar, með því að vera einungis aðgengileg á netinu, útheimta þar af leiðandi engin útibú og ekkert símaver.
Á fyrstu þremur mánuðunum stofnuðu á fimmta þúsund viðskiptavina reikning. Nú telja þeir á annan tug þúsunda.
„Með tilkomu Auðar breyttist bankaumhverfið á Íslandi svo um munar sem sést kannski best á því að einhverjir af stóru bönkunum bjóða nú tvöfalt hærri vexti en þeir gerðu fyrir stofnun Auðar – neytendum til hagsbóta,“ segir Hilmar.