„Þróun á fjölda skortstöðutilkynninga hefur haldist í hendur við þann hækkunarfasa sem hlutabréfamarkaðurinn hefur verið í undanfarin misseri,“ segir í ritinu þar sem fjallað er um helstu verkefni stofnunarinnar á síðasta ári.
Samkvæmt Evrópureglugerð sem tók gildi hér á landi sumarið 2017 þarf að tilkynna fjármálaeftirlitinu um skortstöðu í hlutabréfum þegar hún fer yfir eða fellur undir viðmiðunarmörk sem nema 0,2 prósentum af útgefnu hlutafé félags.
Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að lækka tilkynningaþröskuld úr 0,2 prósent í 0,1 prósent af útgefnu hlutafé hafði töluverð áhrif til fjölgunar tilkynninga á árinu 2020. Af þeim 163 tilkynningum um skortstöður sem bárust það ár voru 53 á bilinu 0,1-0,2 prósent.
Á árinu 2021 voru eingöngu tvær tilkynningar á þessu bili en ákvörðunin um lækkun á tilkynningaþröskuldinum rann út 19. mars 2021.
Fari skortstaða yfir 0,5 prósent af hlutafé félags verður að upplýsa um það opinberlega. Sjóðir í rekstri Kviku eignastýringar hafa verið að skortselja VÍS, eins og Innherji greindi frá í gær, en í byrjun þessarar viku voru þeir með hreina skortstöðu sem nam 0,53 prósentum af útgefnu hlutafé tryggingafélagsins.
Miðað við það nemur skortstaða félagsins, sem er sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Kviku banka, tæplega 200 milljónum króna en markaðsvirði VÍS stendur nú í 35 milljörðum króna og hefur lækkað um nærri níu prósent frá áramótum.
Afar sjaldgæft er að fjárfestar skortselji tiltekin fyrirtæki í Kauphöllinni með svo umfangsmiklum hætti en á undanförnum fimm árum hefur það aðeins gerst tvisvar áður.
Fagfjárfestasjóðurinn Algildi skortseldi þannig Reiti síðla ársins 2020 – mest nam skortstaðan 0,81 prósenti af hlutafé fasteignafélagsins – og hið sama gerðu sjóðir í rekstri GAMMA Capital gagnvart eldsneytisfélaginu N1 á árinu 2017.