Fótbolti

Forseti PSG ætlaði í dómarann eftir leik og lét öllum illum látum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nasser Al-Khelaifi er forseti Paris Saint-Germain og hefur sett mikinn pening í félagið til að vinna loksins Meistaradeildina. Hann þarf að bíða í eitt ár enn að minnsta kosti.
Nasser Al-Khelaifi er forseti Paris Saint-Germain og hefur sett mikinn pening í félagið til að vinna loksins Meistaradeildina. Hann þarf að bíða í eitt ár enn að minnsta kosti. Getty/Sebnem Coskun

Forráðamenn Paris Saint-Germain voru öskuillir eftir leik Real Madrid og Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í gærkvöldi þar sem Real sló PSG út.

Það þurfti að kalla til öryggisverði til að halda aftur af Nasser Al-Khelaifi, forseta PSG, og íþróttastjóranum Leonardo eftir leikinn.

Þeir ætluðu báðir að finna dómara leiksins og kvarta yfir hans frammistöðu.

Parísarliðið var í góðum málum eftir að Kylian Mbappe kom liðinu 1-0 yfir og þar með 2-0 samanlagt. Karim Benzema skoraði hins vegar þrennu í seinni hálfleik og tryggði Real Madrid sæti í átta liða úrslitum.

PSG-menn voru sérstaklega ósáttir með jöfnunarmarkið hjá Karim Benzema en þeir töldu að Benzema hefði þar brotið á markverðinum Gianluigi Donnarumma áður en hann skoraði.

ESPN hefur heimildir fyrir því að þeir Al-Khelaifi og Leonardo hefðu yfirgefið forsetasvítuna í leikslok látandi öllum illum látum. Þeir öskruðu og kölluðu ákvörðun dómarans skammarlega áður en þeir lögðu af stað í átt að leikmannagöngunum til að leita uppi búningsklefa dómaranna.

Þeir fundu ekki dómaraherbergið strax en það tókst á endanum. Þeir bönkuðu þá á dyrnar en öryggisverðir mættu þá að staðinn til að róa menn niður og koma í veg fyrir að PSG-mennirnir færu í dómarann. Einn heimildarmaður ESPN sagði að hann hefði aldrei séð háttsetta menn haga sér svona á knattspyrnuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×