Enski boltinn

Kane ánægður með að komast yfir Henry

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Kane glaðbeittur eftir mark gegn Everton í gærkvöld.
Harry Kane glaðbeittur eftir mark gegn Everton í gærkvöld. Getty

Tottenham-maðurinn Harry Kane komst upp fyrir eina af goðsögnum erkifjendanna í Arsenal, Thierry Henry, með mörkunum tveimur sem hann skoraði í 5-0 stórsigrinum á Everton í gær.

Kane hefur nú skorað 176 mörk í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, eða einu marki meira en Henry gerði á sínum ferli í deildinni.

„Þetta snýst um að nýta þessi færi. Ég er alltaf sannfærður um að ég hitti á markið. Ég reyni alltaf að halda boltanum niðri. Mikil vinna og æfing, engin leyndarmál,“ sagði Kane við Sky Sports í gær, hógvær yfir afreki sínu.

„Thierry var einn besti framherji sem við höfum séð svo það er gaman að komast upp fyrir hann á markalistanum og vonandi heldur þetta svona áfram,“ sagði Kane.

Kane er aðeins 28 ára gamall en byrjaði að skora fyrir Tottenham vorið 2014.

Marki á eftir Lampard

Hann hefur minnst skorað 17 mörk á einni leiktíð í deildinni síðan þá og mest 30 mörk tímabilið 2017-18. Í vetur hefur hann skorað 10 mörk í 25 deildarleikjum, þar af fimm í síðustu þremur leikjum.

Kane er nú í 6. sæti yfir flest mörk skoruð í 30 ára sögu ensku úrvalsdeildarinnar, og ætti að ná Frank Lampard, knattspyrnustjóra Everton, á næstunni því aðeins einu marki munar á þeim.

Alan Shearer og Wayne Rooney eru þeir einu sem skorað hafa yfir 200 mörk í ensku úrvalsdeildinni og er Shearer langmarkahæstur með 260 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×