Innherji

Vaxtahækkanir áfram á dagskrá nema stríðið vindi upp á sig

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Vísir/Vilhelm

Óljóst er hvort efnahagslegar afleiðingar af stríðinu í Úkraínu, einkum miklar hækkanir á hrávöruverði, muni hægja á vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands þegar upp er staðið. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, bendir á að verðbólguhorfur hafi versnað umtalsvert og enn sé útlit fyrir að hagvöxtur verði þokkalegur á þessu ári.

„Vissulega hafa líkurnar á minni og færri vaxtahækkunum aukist, en ég tel að vaxtahækkanir séu enn þá í huga peningastefnunefndar,“ segir Erna Björg.

Á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í byrjun febrúar tók peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þá ákvörðun að hækka vexti um 75 punkta og vísaði í versnandi verðbólguhorfur. Verðlag hélt áfram að hækka í febrúar og mældist tólf mánaða verðbólga um 6,2 prósent borið saman við 5,7 prósent í janúar. 

Frá síðustu verðlagsmælingu hefur stríðið í Úkraínu hefur haft víðtæk áhrif á hrávörumarkaði, einkum olíu og hveiti. Brent-hráolíuverð hefur þannig hækkað 34 prósent frá því að innrás Rússa hófst og hveitiverð um 45 prósent.

„Ég álít að bankinn horfi í vaxandi mæli til innlendra áhrifavalda verðbólgunnar. Ég er ekki viss um að staðan þar hafi mikið breyst þótt augljóslega hafi verðbólguþrýstingur erlendis frá aukist,“ segir Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica.

„Verðbólgumarkmið bankans er frekar skýrt þótt einnig sé til staðar markmið um fjármálastöðugleika. Maður sér ekki að stríðsátökin ógni fjármálastöðugleika hérlendis, að minnsta kosti ekki enn þá.“

Næsta vaxtaákvörðunarfundur er í maí og segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, að mikið vatn eigi eftir að renna til sjávar fram að fundinum.

„Ef stríðið verður enn í fullum gangi, og óvissa jafnmikil eða meiri en nú er, má telja nokkuð líklegt að peningastefnunefndin muni halda að sér höndum þar til línur skýrast,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Verði hins vegar línur farnar að skýrast,“ bætir hann við, „og ástandið á heimsvísu ekki þeim mun verra í kjölfarið er líklegra en ekki að bankinn haldi sínu striki við hækkun vaxta annað hvort í maí eða júní.“

Kjósi erlendir seðlabankar að bregðast ekki við verðbólgu vegna neikvæðra efnahagsáhrifa þá þarf seðlabankinn að taka tillit til þess

Jón Bjarki segir að aðgerðir Seðlabankans megi sín lítils gegn verðbólgu sem stafar af verðhækkunum erlendis. Fyrst og fremst muni Seðlabankinn horfa til þess hvort slík þróun hafi óbein áhrif á verðbólguvæntingar til lengri tíma og innlendan kostnaðarþrýsting.

„Það skiptir líka máli að miklar hækkanir á eldsneyti og öðrum aðföngum draga úr kaupmætti. Þær hafa því dempandi áhrif á innlenda eftirspurn og draga úr þenslu að öðru óbreyttu,“ segir Jón Bjarki.

Erna Björg bendir einnig á að langt sé í næstu vaxtaákvörðun og ótalmargt geti gerst í millitíðinni.

„Eflaust mun Seðlabankinn fylgjast náið með verðbólguþróun erlendis og aðgerðum annarra seðlabanka, til dæmis í Bandaríkjunum þar sem fyrirhugaðar vaxtahækkanir hafa verið í brennidepli. Kjósi erlendir seðlabankar að bregðast ekki við verðbólgu vegna neikvæðra efnahagsáhrifa þá þarf seðlabankinn að taka tillit til þess,“ segir Erna.

Á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að Ísland yrði ekki fyrir jafn beinum efnahagsáhrifum af Úkraínustríðinu og aðrar Evrópuþjóðir. Hann benti á að verulega hefði dregið úr viðskiptum við Rússland frá árinu 2014 og að íslensk heimili horfðu ekki fram á aukinn kostnað við húshitun eins og þau fjölmörgu heimili í Evrópu sem kynt eru með jarðgasi frá Rússlandi.

Hækkun á eldsneytisverði gæti hins vegar sett strik í reikning ferðaþjónustunnar að sögn seðlabankastjóra. „Hækkun á eldsneytisverði hefur áhrif á flug til landsins og það verður að hafa í huga að þessi mikli vöxtur í ferðaþjónustu á árunum 2014 til 2018 var að miklu leyti keyrður áfram af lágu olíuverði. Hátt olíuverð mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna,“ sagði Ásgeir.

Seðlabanki Íslands beitti ítrekuðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í gær til að vega á móti miklum þrýstingi til lækkunar á gengi krónunnar en hún féll engu að síður í verði um liðlega 1,5 til 1,9 prósent gagnvart evrunni og Bandaríkjadal. Mikil gengisstyrking krónunnar frá áramótum – hún hafði meðal annars hækkað um nærri 5 prósent gegn evrunni – er núna að mestu gengin til baka.

„Sú þróun eykur verðbólguþrýsting til viðbótar við erlendar verðhækkanir,“ segir Yngvi hjá Analytica. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×