Innherji

Ein mesta gjaldeyrissala í meira en áratug til að sporna gegn veikingu krónunnar

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar. Vísir/Vilhelm

Seðlabanki Íslands beitti ítrekuðum inngripum á gjaldeyrismarkaði í dag til að vega á móti miklum þrýstingi til lækkunar á gengi krónunnar en hún féll engu að síður í verði um liðlega 1,5 til 1,9 prósent gagnvart evrunni og Bandaríkjadal.

Samkvæmt viðmælendum Innherja á gjaldeyrismarkaði seldi Seðlabankinn gjaldeyri – og keypti þá um leið krónur á móti – fyrir samtals 48 milljónir evra, jafnvirði um 7 milljarða íslenskra króna, en það mun vera ein mesta gjaldeyrissala hans á millibankamarkaði með gjaldeyri á einum degi frá því í ársbyrjun 2009.

Einu tilfellin á því tímabili sem Seðlabankinn hefur gripið til þess ráðs að selja meira af gjaldeyri úr forða sínum var á árinu 2020 þegar bankinn stóð að sérstökum gjaldeyrisviðskiptum í nokkur skipti þegar tveir bandarískir fjárfestingasjóðir – BlueBay Assset Management og Loomis Sayles – seldu allar eignir sínar í íslenskum ríkisskuldabréfum fyrir samanlagt tugi milljarða. Seðlabankinn seldi þá á móti talsvert af gjaldeyri til að aftra því að eignir erlendu sjóðanna hefðu leitað úr landi í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og sett mikinn þrýsting á gengi krónunnar.

Mikil gengisstyrking krónunnar frá áramótum – hún hafði meðal annars hækkað um nærri 5 prósent gegn evrunni – er núna að mestu gengin til baka samhliða aukinni óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna stríðsátakanna í Úkraínu og flótta fjárfesta í öruggari eignir á borð við Bandaríkjadal, gull og ríkisskuldabréf stærri ríkja heimsins.

Í byrjun þessa árs, eins og Innherji hefur áður fjallað um, stóð Seðlabankinn fyrir kaupum á gjaldeyri í nokkrum tilfellum til að reyna að hægja á stöðugri gengishækkun krónunnar á þeim tíma. Samtals keypti bankinn gjaldeyri fyrir um 11 milljarða króna á fyrstu sex vikum ársins. Gengið stóð þannig í 141 krónum gagnvart evrunni um miðjan febrúar síðastliðnum - við lokun markaða í dag var það komið í 146,1 krónu - og hafði þá ekki verið hærra frá því í upphafi faraldursins í mars 2020.

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma.

Þegar faraldurinn stóð hvað hæst beitti Seðlabankinn umfangsmiklum gjaldeyrisinngripum, einkum í því skyni að draga úr tímabundnum þrýstingi á gengi krónunnar, en á síðasta ári námu þau samtals að jafnvirði um 72 milljörðum króna. Þar munaði mest um sölu á gjaldeyri fyrir tæplega 50 milljarða en sem hlutfall af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði voru samanlögð inngrip bankans rúmlega 21 prósent borið saman við 37 prósent á árinu 2020.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans nam um 890 milljörðum króna í lok febrúar, eða sem jafngildir um 30 prósentum af landsframleiðslu.

Frá því í ársbyrjun 2017, þegar gjaldeyrisinngripastefna Seðlabankans var endurskoðuð eftir stórfelld kaup á gjaldeyri árin á undan, hefur meginmarkmið stefnunnar verið að minnka snarpar skammtímasveiflur á gengi krónunnar.

Þegar gengi krónunnar hækkar gerir það Seðlabankanum auðveldara um vik að rækta meginhlutverk sitt, sem er að halda verðbólgunni í 2,5 prósenta markmiði, en á móti kemur er að ljóst að seðlabankstjóri horfir einnig til þess að ekki sé æskilegt að gengið hækki of skarpt á skömmum tíma. Það mun skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, einkum ferðaþjónustunnar á viðkvæmum tíma í endurreisn hennar, og eins gæti of mikil gengisstyrking skapað ójafnvægi í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi þensluhvetjandi áhrifum á hagkerfið.

Seðlabankinn er í inngripum sínum ekkert að fara gegn því sem þróunin í raunhagkerfinu er að segja okkur og það er ljóst að langtímagengi krónunnar mun að einhverju ráðast af því hvenær ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný og við fáum aftur afgang á þjónustuviðskiptum við útlönd

Í viðtali við Innherja eftir síðasta vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans fyrir um mánuði síðan var Ásgeir Jónsson spurður að því hvort gengi krónunnar væri farið að nálgast það að vera hærra en bankanum þætti æskilegt á þessum tíma í hagsveiflunni. Ásgeir sagði svo ekki endilega vera.

„Hækkandi gengi endurspeglar góðan gang í þjóðarbúskapnum, eins og meðal annars með loðnuvertíðinni, og eins sjáum við að ýmsir eru byrjaðir að nýta sér breytingar á lögum um gjaldeyrisviðskipti sem heimilar afleiðuviðskipti með gjaldeyri sem hefur þýtt að gengisþróunin er í meira mæli drifin áfram af væntingum. Það er ekkert óvenjulegt við það að sjávarútvegurinn reyni að verja afurðasölu sína sem á sér stað seinna árinu með framvirkri sölu á gjaldeyri,“ sagði Ásgeir.

Að sögn hans miðuðu gjaldeyrisinngripin að því að gæta þess að gjaldeyrismarkaðurinn fari ekki fram úr sér, eins og hafi oft gerst í gegnum árin, og að viðhalda stöðugleika. „Að ætla að fara að veðja á gengishækkun til að reyna að vinna gegn verðbólgunni væri eins og að pissa í skóinn sinn,“ sagði seðlabankastjóri.

Þá nefndi hann einnig að það sé heldur ekkert verra að endurheimta eitthvað af þeim gjaldeyri sem var seldur á árunum 2020 og 2021 – samtals um 200 milljarðar – til að styðja við gengi krónunnar á þeim tíma. „Seðlabankinn er hins vegar í inngripum sínum ekkert að fara gegn því sem þróunin í raunhagkerfinu er að segja okkur og það er ljóst að langtímagengi krónunnar mun að einhverju ráðast af því hvenær ferðaþjónustan nær vopnum sínum á ný og við fáum aftur afgang á þjónustuviðskiptum við útlönd.“

Seðlabankastjóri sagði að gengi krónunnar nú um stundir væri í „ágætu samræmi við langtímajafnvægi í þjóðarbúskapnum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×