Erlent

Blinken og Kuleba hittust í Póllandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Blinken og Kuleba hittust á landamærum Úkraínu og Póllands í dag.
Blinken og Kuleba hittust á landamærum Úkraínu og Póllands í dag. Vísir/AP

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Úkraínu, Antony Blinken og Dmytro Kuleba áttu fund á landamærum Úkraínu og Póllands í dag. Kuleba sagði það merki um veikleika að NATO neiti að setja á flugbann yfir Úkraínu.

Fundur þeirra Blinken og Kuleba stóð yfir í 45 mínútur og fóru þeir örskamma stund yfir landamærin til Úkraínu. Á meðan á fund þeirra stóð streymdu flóttamenn á flótta yfir til Póllands.

Fyrr í vikunni ræddi Blinken við leiðtoga herflota NATO og í gær hitti hann forsvarsmenn Evrópuráðsins í Brussel. Hann sagði í samtali við fréttamenn að hann hefði trú á því að Úkraína myndi ná að sigrast á innrás Rússa.

Úkraínumenn hafa ítrekað óskað eftir því að Nato setji á flugbann yfir Úkraínu sem myndi þýða að allar flugvélar sem myndu fljúga yfir landið yrðu skotnar niður. Kuleba lýsti yfir óánægju sinni með að ekki væri búið að verða við óskum þeirra.

„Mér finnst það merki um veikleika. Fólkið í Úkraínu mun borga fyrir tregðu NATO,“ sagði Kuleba þar sem hann stóð við hlið Blinken á blaðamannafundi eftir að þeir Blinken höfðu rætt saman.

Hann bætti við að ef dregið yrði úr viðskiptaþvingunum myndi það hafa áhrif á fólkið í Úkraínu.

„Ef einhver í heiminum fer að finna fyrir þreytu vegna þvingananna, þá mun fleira fólk í Úkraínu deyja og þjást.“

Blinken sagði við blaðamenn að allur heimurinn stæði með Úkraínumönnum. Hann sagði stuðningurinn og þrýstingur á Rússa að hætta hernaði myndi aukast þar til stríðinu lyki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×