Skoðun

Leiðtogi framtíðarinnar í borginni

Jensína Edda Hermannsdóttir skrifar

Ég var svo lánsöm að fá að starfa með Þórdísi Sigurðardóttur, sem nú býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík í fimm ár. Ég get með sanni sagt að það sem einkennir hana er afar mikill metnaður og kjarkur til að vilja gera betur, þora og brenna fyrir árangri.

Þórdís Sigurðardóttir blæs samstarfsfólki sínu byr í brjóst með metnaði sínum, virðingu og gáfum. Þórdís vinnur af heilindum og treystir fólki til verka, en hvort tveggja er lykilatriði að mínu mati til að ná settu marki og einnig aðalsmerki góðra stjórnmálamanna.

Styrkur og leiðtogahæfni

Það er heillavænlegast í lífinu að við séum öll saman á árunum, samtaka um að skapa samfélag sem lyftir okkur og grípur. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og við eigum að láta okkur varða um velferð hvers annars. Góður skóli skipar stóran í velgengni samfélaga. Mín reynsla er að góður skóli getur lyft fjölskyldum og stækkað samfélagið í kringum sig með framlagi sínu. Það væri mikill ávinningur að fá Þórdísi til starfa fyrir Reykjavíkurborg og sjá hana beita sér í skólamálum í þágu borgarinnar allrar. Ég hef innilega trú á henni, því ég þekki hana af góðum verkum, í henni býr mikill kraftur, innri styrkur, leiðtogahæfni og brennandi sýn á betra samfélag.

Lyftum upp kvennastéttum

Ég hef unnið að skólamálum og velferð barna og fjölskyldna síðan á síðustu öld og ég veit af eigin raun að ef það er eitthvað sem þarfnast viðsnúnings þá er það að finna lausnir fyrir fjölskyldur og börn. Kerfið er þungt í vöfum en treysta þarf skólafólki fyrir störfunum sínum, því í trausti verður til afl. Um leið væri líka verið að lyfta heilli stétt, því sannarlega eru í skólunum kvennastéttir. Það væri bæði eftirsóknarvert og aðdáunarvert framtak. Með því að valdefla fólkið sem starfar með börnunum væri verið að valdefla konur og það er stórt jafnréttismál og væri stökk inn í betri og bjartari framtíð. Skóli er fólkið sem er þar og gott fólk gerir góðan skóla. Skólafólkið sjálft ber ábyrgð á að skapa góðar aðstæður á hverjum degi fyrir börn. Barni sem líður vel er nám eðlislægt. Það er svo mikið lykilatriði að hver og ein manneskja sem kemur að barni finni að sér er treyst og hafi umboð yfir sínu starfi. Fólk sem vinnur saman sem ein heild nær lengra.

Viðreisnarfólkí Reykjavík er lánsamt að eiga kost á því að geta kosið leiðtoga eins og Þórdísi Sigurðardóttur í 1. sæti.

Höfundur er leikskólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×