Umræðan

Skyldur stjórnenda hlutafélaga og krafan um sjálfbærni

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Í umræðunni er oft talað um sjálfbærni í tengslum við fjárfestingar og rekstur fyrirtækja. Ég verð að viðurkenna að ég hef sjálfur átt erfitt með að átta mig á merkingu hugtaksins. Vissi að þetta tengdist umhverfisvernd og náttúrunni, en ekkert meira en það. Geri ráð fyrir að það séu til óteljandi skilgreiningar á hugtakinu, en í grunninn virðist sjálfbærni snúast um samþættingu umhverfisverndar við félagslega og efnahagslega þróun þannig að þörfum jarðarbúa sé fullnægt án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðar að næstu kynslóðir geti ekki mætt þörfum sínum.

Vegna alvarlegrar stöðu í loftslagsmálum í dag er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á sjálfbærni, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hjá Evrópusambandinu (ESB) hefur verið talið nauðsynlegt að bregðast við þessari stöðu meðal annars með því að koma með nýja löggjöf á sviði félagaréttar sem leggur beina lagaskyldu á félög af tiltekinni stærðargráðu að framkvæma svokallaðar áreiðanleikakannanir til að greina, koma í veg fyrir og draga úr neikvæðum áhrifum rekstrarins á mannréttindi og umhverfið. Auk þess hefur ESB talið nauðsynlegt að skerpa á trúnaðarskyldu stjórnenda hlutafélaga hvað varðar sjálfbærni. Hugmyndir þessa efnis komu fram á sjónarsviðið árið 2020 og hafa sætt mikilli gagnrýni af hálfu fræðimanna á sviði félagaréttar.

Ný tillaga að tilskipun ESB lögð fram þrátt fyrir mikla gagnrýni

Í júlí 2020 kynnti framkvæmdastjórn ESB hugmyndir sínar um að skylda hlutafélög til að framkvæma umræddar áreiðanleikakannanir og útfæra trúnaðarskyldu stjórnenda hlutafélaga með þeim hætti að í ákvörðunartöku þurfi m.a. að taka tillit til sjónarmiða er varða sjálfbærni, t.d. varðandi hugsanlegar afleiðingar fyrir umhverfið og loftslagsbreytingar. Til stuðnings þessum hugmyndum sínum lagði framkvæmdastjórnin fram tvær rannsóknir sem áttu að styðja þessa nálgun.

ESB hefur talið nauðsynlegt að skerpa á trúnaðarskyldu stjórnenda hlutafélaga hvað varðar sjálfbærni. Hugmyndir þessa efnis komu fram á sjónarsviðið árið 2020 og hafa sætt mikilli gagnrýni af hálfu fræðimanna á sviði félagaréttar.

Töluverð gagnrýni kom fram á þessa fyrirætlan framkvæmdastjórnarinnar, m.a. vegna útfærslu á skyldum stjórnenda í tengslum við sjálfbærni og vegna þess að reglurnar áttu að ná til allra stórra hlutafélaga á Evrópska efnahagssvæðinu og lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem væru skráð á markað. Framkvæmdastjórnin kynnti frumvarp um áreiðanleikakannanir um sjálfbærni fyrirtækja 23. febrúar síðastliðinn. Miðað við upphafleg markmið ESB um sjálfbæra stjórnarhætti og skyldur stjórnenda, sem voru kynnt árið 2020, er í frumvarpinu búið að þynna verulega út kröfurnar sem gera á til fyrirtækja í tengslum við sjálfbærni. Annars vegar er dregið töluvert úr áherslunni á skyldur stjórnenda í tengslum við sjálfbæra stjórnarhætti og hins vegar eru reglur tilskipunarinnar aðeins látnar ná til fyrirtækja af ákveðinni stærðargráðu. Reglurnar taka því ekki til smárra og meðalstórra fyrirtækja sem eru skráð á markað, líkt og upphaflega var stefnt að. Þegar þetta er skrifað hefur frumvarpið aðeins verið lagt fram. Nú fer í gang allt lagasetningarferlið hjá ESB sem getur leitt til töluverðra breytinga á lokatexta tilskipunarinnar (ef hún verður yfir höfuð samþykkt).

Um hvað snýst gagnrýnin varðandi skyldur stjórnenda?

Þrátt fyrir að framkvæmdastjórn ESB hafi að einhverju leyti komið til móts við gagnrýni er varðar skyldur stjórnenda með því að draga úr kröfum um ábyrgð þeirra í tengslum við umræddar áreiðanleikakannanir, var ákveðið að halda inni reglu um innihald trúnaðarskyldu stjórnenda í frumvarpinu. Lengi hefur verið viðurkennt í félagarétti að stjórn og framkvæmdastjórar hlutafélags hafi þá meginskyldu að gæta hagsmuna félagsins, sem felur í sér að þeim beri að taka hagsmuni félagsins fram yfir sína eigin.

Dregið er töluvert úr áherslunni á skyldur stjórnenda í tengslum við sjálfbæra stjórnarhætti og hins vegar eru reglur tilskipunarinnar aðeins látnar ná til fyrirtækja af ákveðinni stærðargráðu. Reglurnar taka því ekki til smárra og meðalstórra fyrirtækja sem eru skráð á markað.

Útgangspunkturinn hjá framkvæmdastjórn ESB virðist hafa verið sá að stjórnendur hugi aðallega að skammtímahagsmunum félags með því að hámarka hagnað hluthafa félagsins en taki minna tillit til langtímahagsmuna félagsins, til dæmis varðandi sjálfbærni í rekstri. Þar af leiðandi var talið nauðsynlegt að útfæra trúnaðarskyldu stjórnenda þannig að í henni fælist m.a. að stjórnendur þurfi að taka tillit til sjónarmiða er varða sjálfbærni í ákvörðunartöku sinni. Gagnrýnin á þetta snýr ekki að því að fyrirtæki þurfi að stuðla að sjálfbærni í rekstri sínum. Gagnrýnin snýr að því að framkvæmdastjórnin hefur talið nauðsynlegt að gera það hluta af almennri trúnaðarskyldu stjórnenda fyrirtækja. Bent hefur verið á að hagsmunir hluthafa og langtímahagsmunir félags, meðal annars með tilliti til sjálfbærni í rekstri, fara að verulega leyti saman. Hluthafar hafa mikla hagsmuni af því að félögin stuðli að sjálfbærni í rekstri, enda getur það aukið lífvænleika félaganna og framtíðartekjumöguleika þeirra. Ekki fæst séð að það sé nauðsynlegt að beintengja trúnaðarskyldu stjórnenda við sjálfbærnisjónarmið enda sé það nú þegar hluti af hagsmunum félagsins. Væri ekki eðlilegra að þrýstingurinn kæmi frá hluthöfum sjálfum sem hafa ýmis tól og tæki í lögum til að ýta undir að stjórnendur stuðli að sjálfbærni í rekstri, heldur en að binda í lög þessa skyldu stjórnenda hlutafélaga?

Ekki fæst séð að það sé nauðsynlegt að beintengja trúnaðarskyldu stjórnenda við sjálfbærnisjónarmið enda sé það nú þegar hluti af hagsmunum félagsins.

Velta má því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að löggjafinn útfæri trúnaðarskyldur stjórnenda hlutafélaga með þessum hætti, sérstaklega í ljósi þess að stjórnendur þurfa nú þegar að horfa til langtímahagsmuna félagsins. Auk þess má horfa til þess að vægari leiðir eru í boði til að ná fram sömu markmiðum um sjálfbærni. Sem dæmi er að finna ákvæði í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem beina því til stjórna fyrirtækja að setja sér stefnu um sjálfbærni félagsins.

Ekki er ætlunin hér að taka afstöðu til þess hvort útfærsla framkvæmdastjórnar ESB á trúnaðarskyldu stjórnenda í frumvarpinu sé rétt eða æskileg, heldur var markmiðið aðeins að vekja athygli á þessari nýju tillögu ESB á sviði félagaréttar og þeirrar gagnrýni sem hún hefur sætt. Ef tilskipunin verður samþykkt liggur fyrir að hún verði á einhverjum tímapunkti innleidd í íslenskan rétt.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík.




Umræðan

Sjá meira


×