Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fram 34-31 | Eyjamenn höfðu betur í hörkuleik

Einar Kárason skrifar
Rúnar skoraði tólf mörk í kvöld.
Rúnar skoraði tólf mörk í kvöld. Vísir/Vilhelm

ÍBV vann góðan þriggja marka sigur gegn Fram í Olís-deild karla í kvöld, 34-31, þegar liðin mættust í Vestmannaeyjum. Ekki var mikið sem skildi liðin að en góður lokakafli Eyjamanna sigldi sigrinum í höfn.

Framarar mættu inn í leikinn með sigur á bakinu gegn Víkingum en höfðu þar á undan tapað fjórum leikjum í röð og sátu í níunda sæti deildarinnar. Eyjamenn voru í fjórða sæti fyrir leik en hafa úrslit undanfarinna leikja verið upp og niður og allt þar á milli. Leikurinn var stál í stál allt frá byrjun leiks en gestirnir úr Safamýrinnni höfðu þó yfirhöndina bróðurpart fyrri hálfleiks. Heimamenn voru þó aldrei langt undan og var munurinn á liðunum í fyrri hálfleik mestur tvö mörk. Þegar bjallan markaði lok fyrri hálfleiks var staðan 14-16, gestunum í vil.

ÍBV hóf síðari hálfleik af krafti og jafnaði leikinn með tveimur mörkum áður en Fram komst aftur yfir. Við tók þá framhald af fyrri hálfleiknum þar sem liðin skiptust á að skora en gestirnir þó alltaf einu skrefi framar. Það var ekki fyrr en um stundarfjórðungur eftir lifði leiks sem ÍBV komst yfir að nýju, þá í stöðunni 23-22. Framarar svöruðu og virtist leikurinn ætla að verða æsispennandi allt til loka. 

Eyjamenn náðu tveggja marka forustu þegar innan við tíu mínútur voru eftir en bláklæddir Framarar náðu að að jafna leikinn að nýju í 30-30 og tæplega þrjár mínútur eftir. Heimamenn sáu þó til þess að stuðningsmenn þeirra þyrftu ekki að naga neglurnar upp að rótum en þeir skoruðu næstu þrjú mörk leiksins og því komnir í kjörstöðu þegar skammt var eftir. Bæði lið komu boltanum í netið áður en hávær bjallan glumdi í síðasta sinn. 

Niðurstaðan því 34-31 í hörkuleik og geta Framarar nagað sig í handabökin á meðan Eyjamenn raða stigunum tveimur í pokann.

Af hverju vann ÍBV?

Bæði lið hefðu ,,auðveldlega" getað tekið stigin tvö í kvöld en góður lokakafli Eyjamanna í bland við vondan lokakafla Framara varð til þess að stigin urðu eftir í Eyjum. Fram missti boltann í tvígang þegar skammt var eftir og ÍBV gekk á lagið.

Hverjir stóðu upp úr?

Rúnar Kárason var afgerandi í sóknarleik ÍBV í kvöld en hann skoraði tólf mörk. Honum næstur var Theodór Sigurbjörnsson með sjö mörk úr sjö skotum. 

Í liði gestanna var Vilhelm Poulsen atkvæðamestur með sjö mörk en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Rógvi Christiansen skoruðu sitthvor fimm mörkin. 

Hvað gekk illa?

Markvarsla hjá báðum liðum var ekki sérstök í kvöld. Bæði lið tefldu fram tveimur markvörðum, þó til skiptis, sem samtals vörðu tólf skot. Sex á hvort lið. Varnarleikur beggja liða var kaflaskiptur enda skoruð sextíu og fimm mörk í leiknum.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn gera sér ferð í Mosfellssveitina og etja þar kappi við Aftureldingu á meðan Framarar taka á móti KA.

Erlingur: Sóknarleikurinn ekki höfuðverkur

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV.Vísir/Hulda Margrét

,,Þetta var baráttuleikur, eins og búast mátti við," sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, að leik loknum. ,,Við áttum von á þeim í framliggjandi vörn sem og reyndist. Mér fannst við leysa hana nokkuð vel heilt yfir. Markvarslan í fyrri hálfeik var ekki nægilega góð en batnaði aðeins í seinni. Þá náum við nokkrum hraðaupphlaupum sem við höfðum ekki náð í fyrri hálfleik. Við náðum að jafna leikinn í upphafi seinni hálfleiks og svo var þetta bara barátta. Þá var það bara spurning hvort liðið væri klókara eða heppnara í lokin."

,,Þeir fara í hraðaupphlaup undir lokin og kasta boltanum útaf. Það eru tæknifeilar hjá þeim sem við nýtum okkur. Þetta var bara spurning hvort liðið myndi gera mistök í lokin. Sigurinn liggur í raun bara þar."

Sóknarleikurinn góður

,,Hann var gríðarlega sterkur í dag," sagði Erlingur um Rúnar Kárason sem átti afbragðsleik í kvöld. ,,Sóknarleikurinn var ekki höfuðverkurinn í dag. Við vorum aðeins of mjúkir varnarlega í fyrri hálfleik. Við náðum baráttugleðinni í þeim síðari og fengum þá betri færi eins og hraðahlaup sem við gátum nýtt."

,,Það er eflaust eitthvað sem við getum lagað varnarlega þegar búið er að skoða efnið. Mér fannst línumaður Framara of oft laus í fyrri hálfleiknum en náðum að loka betur á hann í seinni. Það var sá punktur sem við ræddum í hálfleik."

,,Það er alltaf leiðinlegt að tapa en skemmtilegt að vinna. Við erum á ágætis róli og liðin þurfa að fá leiki til að komast í leikform. Það hafa verið langar pásur og löng bið. Nú kemur enn ein pásan og það verður fróðlegt hvernig við komum undan henni," sagði Erlingur að lokum.

Einar: Hann slátraði okkur

Einar Jónsson, þjálfari Fram.Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Framara, var að vonum svekktur og sammála fréttaritara að þriggja marka tap segi ekki alla söguna. 

,,Það segir svo sannarlega ekki alla söguna. Mér fannst við góðir í dag. Sóknarleikurinn mjög góður og vörnin ágæt. Ég hefði viljað meiri markvörslu, en Eyjamenn segja líklega slíkt hið sama. Það var ekki mikil markvarsla í þessum leik.

,,Við réðum ekkert við Rúnar (Kárason) en vorum með flest allt annað á hreinu. Hann slátraði okkur hérna í dag. Við leiðum eiginlega allan leikinn. Síðustu tíu mínúturnar gerum við stór mistök í tvígang og við vorum í basli með Rúnar. Við reyndum að breyta um vörn og klippa hann út en hættum því."

,,Svo verð ég bara að segja eins og er, en ég held að allir í húsinu hafi séð það að það voru tveir aðrir þáttakendur sem gerðu slæm mistök á lokakaflanum sem var dýrt fyrir okkur í svona jöfnum leik."

Stoltur af strákunum

,,Við getum tekið fullt af jákvæðum hlutum úr þessum leik, en við höfum svo sem verið að skoða margt í okkar leik. Í upphafi seinni hálfleiks erum við tveimur mörkum yfir en tveir tæknifeilar verða til þess að þeir jafna strax. Þarna vantar klókindi og meiri skynsemi. Eins á lokakaflanum þar sem við gerum fleiri mistök sem telja grimmt. Sérstaklega á móti liði eins og ÍBV."

,,Ég er þó stoltur af strákunum. Mér fannst þeir gera vel og í heildina var þetta fínn leikur. Það vantaði bara að þetta myndi detta okkar megin á lokakaflanum en ÍBV var á heimavelli svo þetta datt þeirra megin."

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira