Erlent

Húsið hristist eftir öflugar sprengingar í miðborg Kænugarðs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði.
Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði. Stöð 2

Óskar Hallgrímsson, íslenskur ljósmyndari sem búsettur er í Kænugarði, segir að borgin minni á draugaborg. Fregnir af gríðarlangri hergagnalest Rússa sem sögð er stefna í átt að borginni vekur ugg.

Óskar ræddi við Eddu Andrésardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem hann fór yfir stöðuna í Kænugarði þessa stundina.

„Staðan er nú bara þannig að borgin er eins og draugaborg. Hún er hálftóm og fólk er aðallega inni hjá sér. Það er nú þannig. Eða í byrgjum því að fólk þorir ekki mikið að fara út,“ sagði Óskar.

Stuttu eftir að hann ræddi við Eddu varð Óskar varð við tvær öflugar sprengingar sem fregnir herma að hafi verið við lestarstöðina í Kænugarði. Segir hann að þessar sprengingar hafi verið þær öflugustu sem hann hafi orðið var við þessa, hús hans og eiginkonu hans hristist meðal annars.

Hann upplifir sig þó tiltölulega öruggan í borginni og er ekki á förum.

„Við tókum ákvörðun um það snemma ég og konan mín að taka þessar áhyggjur og þennan ótta og bara ýta því til hliðar og nýta það bara í eitthvað annað. Við upplifum okkur örugg á þeim stað þar sem við búum í borginu. Það er nú bara þannig og ég held að það sé sniðugra en að vera á vergangi þarna einhvers staðar þarna fyrir vestan,“ sagði Óskar.

Langar raðir voru við apótek í Kænugarði í dag. Óskar segir að reglur um lyfseðla hafi verið afnumdar þar sem fólk sæki nú lyf fyrir ættingja, vini og nágranna.Óskar Hallgrímsson

Fregnir hafa borist að gríðarlangri hergagnalest Rússa sem sögð er stefna í átt að Kænugarði. Lestin hefur reyndar færst lítið að undanförnu og hefur verið sagt frá því að hermennina skorti vistir. Óskar segir að hergagnalestin veki ugg á meðal borgara.

„Þetta vekur ugg en er samt ekkert það hræðilegt af því bara hún er bensínlaus. Hún er stopp, þeir eru ekki með vistir. Þeir eru að brjótast inn í byggingar til að ná sér í mat,“ sagði Óskar.

„Borgin sjálf er vel varin en auðvitað vekur þetta ugg og maður er hálfskelkaður við þessar fregnir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×