Innherji

Kóngsbakki tvöfaldar hlut sinn í Play, félag Andra selur í fyrsta sinn

Hörður Ægisson skrifar
Flugfélagið er nú með þrjár vélar í rekstri en í sumar verða þær sex.
Flugfélagið er nú með þrjár vélar í rekstri en í sumar verða þær sex. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Eignarhaldsfélagið Kóngsbakki, sem er í eigu hjónanna Gunnars Örlygssonar og Guðrúnar Hildar Jóhannsdóttur, bætti umtalsvert við hlut sinn í Play í síðasta mánuði og er núna tólfti stærsti eigandi flugfélagsins með rúmlega tveggja prósenta hlut.

Félagið átti áður um 1,2 prósenta eignarhlut, eða um 8,4 milljónir hluta að nafnvirði, en samkvæmt nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Play í lok febrúar ræður það núna yfir um 14,2 milljónum hluta að nafnvirði. Miðað við gengi bréfa flugfélagsins við lokun markaða í dag – hlutabréfaverð þess stóð þá í 22,2 krónum á hlut og hefur lækkað um 11 prósent á undanförnum sjö dögum – þá er markaðsvirði þess hlutar um 310 milljónir króna.

Þau Gunnar og Guðrún eru stofnendur fiskútflutningsfyrirtækisins Icemar í Reykjanesbæ en síðastliðið haust seldu þau 60 prósenta hlut í félaginu til bandaríska sjávarútvegsfyrirtækisins Sealaska.

Félagið Gildur, sem er í eigu Andra Sveinssonar sem starfaði áður um árabil hjá fjárfestingarfélaginu Novator, minnkaði á sama tíma við hlut sinn í Play og er núna ekki lengur á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins. Gildur átti áður um 1,2 prósenta eignarhlut, sem jafngilti 10 milljónum hluta að nafnvirði, en hefur selt að lágmarki um 1,5 milljónir hluta í liðnum mánuði.

Gunnar Örlygsson, annar eigenda Kóngsbakka og framkvæmdastjóri fiskútflutningsfyrirtækisins Icemar.vísir/stefán

Andri var á meðal þeirra fjárfesta sem lögðu Play til fjármagn við stofnun þess vorið 2021 þegar félagið sótti sér samtals um sex milljarða króna. Þetta er í fyrsta sinn sem hann selur hluta af bréfum sínum í Play frá þeim tíma.

Stærstu hluthafar Play í lok síðasta mánaðar eru eftir sem áður fjárfestingafélagið Fiskisund, Birta lífeyrissjóður, Stoðir og hlutabréfasjóðurinn Akta Stokkur. Þegar mest var í september í fyrra, eins og Innherji hefur áður fjallað um, áttu þrír sjóðir í stýringu Akta – Stokkur, HL1 og HS1 – samanlagt um 13 prósenta hlut í Play en þeir hafa síðan minnkað verulega við hlut sinn í félaginu og fara í dag með um sex prósent.

Flugfélagið er nú með þrjár vélar í rekstri en í sumar verða þær sex. Í síðustu viku tilkynnti Play að það hefði hafið miðasölu á flugi til Orlando í Flórída sem verður fjórði áfangastaður félagsins í Bandaríkjunum en hinir þrír eru Boston, Baltimore/Washington DC og New York.

Play flutti tæplega 13.500 farþega í janúar á þessu ári og var sætanýting félagsins um 55,7 prósent borið saman við 53,2 prósent í desember.

Hlutabréfaverð Play, rétt eins og annarra félaga í Kauphöllinni, hefur lækkað talsvert að undanförnu en frá áramótum hefur það fallið um 4,3 prósent. Til samanburðar hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 11,5 prósent yfir sama tímabil.

Markaðsvirði Play er um 15,5 milljarðar króna og hefur lækkað um liðlega 5 milljarða frá því að það var hæst um miðjan októbermánuð í fyrra.


Tengdar fréttir

PLAY ræsir miðasölu til Orlando, sjá mikið svigrúm til verðlækkana

PLAY hefur hafið miðasölu á flugi til Orlando í Flórída sem verður fjórði áfangastaður flugfélagsins í Bandaríkjunum. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir flugfélagið geta boðið mun hagstæðari fargjöld til Orlando en tíðkast hafa hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×