Klinkið

Verði af sigri Þórdísar Jónu gæti Dagur lent í klandri

Ritstjórn Innherja skrifar
Prófkjör Viðreisnar fer fram fjórða og fimmta mars. Lokað verður fyrir nýskráningar á miðnætti.
Prófkjör Viðreisnar fer fram fjórða og fimmta mars. Lokað verður fyrir nýskráningar á miðnætti.

Lokað verður fyrir nýskráningar vegna fyrsta prófkjörs Viðreisnar í Reykjavík á miðnætti í dag. Óhætt er að segja að mótframboð Þórdísar Sigurðardóttur hafi hleypt lífi í baráttuna og keppast frambjóðendur við að tryggja sér atkvæði flokksmanna í höfuðborginni.

Heimildir herma að nýskráningar hlaupi á hundruðum og því um talsverðar smalanir að ræða á báða bóga. Stuðningsfólk Þórdísar Jónu Sigurðardóttur telja henni til tekna að hún gangi óbundin til kosninga og sé mun líklegri en nafna sína og sitjandi oddviti til að mynda meirihluta til hægri. Þórdís Lóa hefur þó lýst því yfir, meðal annars í viðtali við Innherja, að hún gangi einnig óbundin til kosninga.

Hins vegar hefur hluta Viðreisnarfólks þótt Þórdís Lóa halla sér um of upp að vinstrimeirihlutanum sem heldur nú um stjórnartaumana í borginni. Þórdís Jóna sá sér þar leik á borði og freistar þess að svara því kalli flokkssystkina sinna með framboði sínu.

Það hugnast mörgu Viðreisnarfólki enda stendur von flokksins til að þau verði í oddastöðu við myndun meirihluta að loknum kosningum í maí, líkt og í síðustu kosningum. Þá kaus Þórdís Lóa að hlaupa undir bagga og mynda meirihluta með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum.

Prófkjör flokksins í borginni fer fram dagana 4.-5. mars.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Prófkjörsslagur Innherja: Þórdís Jóna og Þórdís Lóa bítast um fyrsta sætið

Nöfnurnar og flokkssysturnar Þórdís Jóna Sigurðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, sitjandi oddviti Viðreisnar í borginni, heyja nú baráttu um oddvitasætið í fyrsta prófkjöri Viðreisnar sem fram fer dagana 4.-5. mars. Þórdís Lóa er gjarnan kölluð Lóa og verður kölluð það í greininni, til að aðgreina frambjóðendur.

Dagur segir hvergi hafa borið skugga á meirihlutasamstarfið en Viðreisn heldur öllu opnu

Oddvitar þeirra fjögurra flokka sem mynda meirihluta í borginni, Samfylkingar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata segja samstarfið hafa gengið vel og myndu vilja halda því áfram. Oddviti Viðreisnar ítrekar að samstarfið sé gott en er sá oddviti sem sker sig úr um að leggja áherslu á að flokkurinn gangi óbundinn til kosninga. 






×